Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur ákveðið að leggja dagsektir á
ítalska verktakafyrirtækið Impregilo vegna ítrekaðra brota á ákvæðum
laga um hollustuhætti og mengunarvarnir á framkvæmdasvæði fyrirtækisins
við Kárahnjúka. Svæðið er innan nýstofnaðs Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta kemur fram í fréttum RÚV.
Heilbrigðiseftirlitið hefur haft ítrekuð afskipti af starfsháttum Impregilo frá upphafi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun árið 2004.
Meðal þess sem heilbrigðiseftirlitið hefur haft afskipti af á síðustu vikum er olíumengun, brot á reglum um meðferð spilliefna, fokefni og úrgangur á víðavangi og illa hirtar girðingar í kringum skólpmenguð svæði.
Á síðasta fundi Heilbrigðisnefndar var ákveðið að leggja dagsektir, 50 þúsund krónur á dag, á Impregilo til að knýja á um að skólpmenguð svæði verði girt af, en í fundargerð segir að skólpmengun í umhverfi sé ógn við öryggi dýra og manna , sem og ógn við afkomu bænda, ef sauðfé sýkist eða ber með sér sýkingar.
Heilbrigðisnefndin hefur ítrekað krafist þess að Impregilo fari að íslenskum lögum og reglugerðum um meðferð, geymslu og flutning úrgangs, en fyrirtækinu var veittur tveggja vikna frestur til úrbóta í síðustu viku.