„Þetta er að mínu mati fráleitt og segir okkur að það sé ekki tekið á vandanum,“ segir Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, um ákvörðun Landspítalans um að semja við Securitas um að öryggisverðir á vegum fyrirtækisins sitji yfir t.d. sjúklingum á geðdeild spítalans. „Við viljum sjá fagmenntað fólk í þessum störfum.“
Sveinn segir þetta staðfesta að forvörnum og eftirfylgni sé ekki sinnt sem skyldi og að skortur sé á að meðferðaraðilar hafi umsjón með meðferð fólks með geðraskanir á spítalanum.
„Ef menn telja að kalla þurfi á öryggisgæslu, spyr maður sig hvað valdi því að beita þurfi slíku neyðarúrræði.“ Augljóst sé að ekki er gripið inn í fyrr en í óefni er komið.
Það getur haft slæm áhrif á bata fólks með geðraskanir að upplifa að öryggisverðir eða löggæslumenn sinni yfirsetu, segir Sveinn. „Þetta er ógn sem geðsjúkir þurfa ekki á að halda.“
Hann segir þetta vera hluta af almennu viðhorfi í samfélaginu til fólks með geðraskanir. Dæmi séu um að lögreglubílar séu sendir á vettvang þegar beðið er um sjúkrabíl fyrir geðsjúka, þótt ekkert tilefni sé til. „Ég lenti t.d. í því síðasta vetur að hringja á sjúkrabíl, vegna þess að það var talið að maður hjá okkur hefði fótbrotnað, og sagði að þetta væri hjá Geðhjálp. Allt í einu birtist hér lögreglubíll. Það er náttúrlega fráleitt en segir manni ýmislegt.“