Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkur fékk í morgun heimild til að mála illa farið hús við Bergstaðastræti, en ítrekað hefur verið kvartað yfir ásýnd þess, sem og ástandi lóðar. Þessi framkvæmd var í tengslum við átakið „hrein borg“, sem felst meðal annars í að fjarlægja veggjakrot í miðborginni.
Byggingarfulltrúi, sem hefur verið í samskiptum við eigendur illa farinna bygginga og krafist úrbóta, gaf heimild til verksins. Fram kemur á vef framkvæmda- og eignasviðs, að verktaki, sem stendur í framkvæmdum á næstu lóð, hafi greinilega litið á þetta framtak sem hvatningu um góða umgengni og málaði gám sem hafi legið vel við höggi krotara.
Þá hófst einnig í dag vinna við að lagfæra og mála yfirgefið og illa útleikið hús við Frakkastíg, áður hljóðfærahúsið Rín.