„Ég var með sjúkling sem var með stórt legusár sem greri illa. Það var 7 cm djúpt og 10 cm í þvermál. Það var búið að prófa allt en ekkert virkaði,“ segir Inga Guðmundsdóttir Sørlie, hjúkrunarfræðingur sem býr í Noregi.
Eftir að hún las að hunang hefði forðum verið notað á sár fékk hún leyfi hjá lækni til að prófa að bera það á sár mannsins þar sem ekkert annað virtist virka. Inga smurði hunangi inn í sárið og utan á en sökum bakteríusýkingar var mikið af dauðu holdi í sárinu og það lyktaði illa. Því næst setti hún umbúðir yfir sárið og lét það ósnert í þrjá daga.
Að þessum þremur dögum liðnum var ólyktin horfin. Inga hreinsaði sárið og smurði að nýju. Þremur dögum síðar var dauða holdið farið. Inga segir sárið hafa verið minna en áður og ekki jafndjúpt. „Ég gerði þetta stanslaust í átta vikur þar til pínulítið sár var eftir sem hvarf á endanum.“
Inga skrifaði lokaritgerðina sína í hjúkrunarfræði um lækningamátt hunangsins og segir hún skólanum hafa fundist niðurstöðurnar afar spennandi. Þegar hún hóf skrifin var hún sannfærð um að heimildaleitin yrði erfið en í ljós kom að töluvert hefur verið skrifað um hunang í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Þar var nýlega byrjað að nota hunang á elliheimilum til að græða legusár og þrýstingssár á fótum.
Spurð nánar um þennan lækningamátt hunangs stendur ekki á svörum hjá Ingu. „Hunang gerir það að verkum að sár grær hraðar. Það minnkar bjúg, hreinsar burt dautt hold, dregur úr sýkingum, bólgum og greftri og örvar endurnýjun húðarinnar.“
Hún segir það virka vel á brunasár, þrýstisár og legusár. Það virki gegn allt að 60 mismunandi bakteríutegundum, sem sumar hverjar hafa myndað ónæmi gegn sýklalyfjum. Hunang virki líka vel til inntöku og slái þá á hálsbólgu.