Sumarstemning hefur verið á Austurvelli og í nærliggjandi götum í dag en Pósthússtræti var lokað fyrir umferð bíla í morgun vegna góðrar veðurspár. Hljómsveitir hafa spilað úti og borgarbúar hafa sleikt sólskinið og notið veitinga.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar kom hugmyndin um að loka Pósthússtræti fyrir bílaumferð frá óþekktum borgarbúa þegar sviðið vann að endurskoðun á umhverfisstefnu borgarinnar. Hugmyndin var síðar notuð þegar svonefnd Græn skref í Reykjavík voru skipulögð.