Íslenska sendinefndin sem fór til Íraks er búin að velja hóp kvenna og barna sem hún leggur til að komi til Akraness. Flóttamannaráð Sameinuðu Þjóðanna mun ákveða í næstu viku hvort þetta verður staðfest eða ekki.
Hópurinn sem sendinefndin hefur valið er settur saman af níu til tíu konum og börnum þeirra. Flóttamannaráð Sameinuðu Þjóðanna þarf að staðfesta tillöguna og mun ákvörðun þeirra koma í næstu viku.
Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, segir að undirbúningur fyrir komu flóttamannanna muni hefjast undir eins. Byrjað verði á að ráða verkefnastjóra og sé mikill áhugi fyrir þeirri stöðu. Það muni ráðast á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku hver verði ráðinn.
„Við erum ekki búin að finna húsnæði enda þurftum við fyrst að fá samsetningu hópsins, það mun þurfa svo fjölbreytt húsnæði. Allt frá því að vera fyrir eina manneskju upp í fimm,“ segir Gísli. Hann segist vera bjarsýnn á að þetta leysist vel og að bæjarfélagið sé vel í stakk búið fyrir verkefnið. Það sé erfitt að segja nákvæmlega hvað sé til af lausu húsnæði en það flytji að meðaltali tíu manns til Akraness á viku og því sé mikið byggt.
„Það er okkar mottó að margar fjölskyldur fari heldur ekki í sama húsið, heldur kannski ein til tvær fjölskyldur. Það er okkar vilji að samfélagið veiti þessu fólki stuðning en það þarf líka að geta veitt hvort öðru stuðning,“ segir Gísli.
Margar fjölskyldur á Akranesi hafa gefið sig fram sem stuðningsfjölskyldur og Gísli segir fólk á Akranesi vera mjög jákvætt gagnvart flóttamönnunum. Fólk sé mjög meðvitað um málið og Gísli segir að félagsmálaráð muni vinna að málinu af krafti.
Varðandi óánægju sem kom upp í vor vegna tillögunnar um að taka á móti flóttamönnum segir Gísli að misskilningi hafi verið komið á og verið að blanda saman félagslegri þjónustu og móttöku flóttamanna en það væri alveg sitt hvað. „Við höfum nægjanlegt hjartarými og vilja til að styðja fólk sem á bágt. Það er líka okkar von að með tímanum verði þau sem hingað koma eins og við hinir Akranesingarnir.“