Á mbl.is er nú hægt að hlusta á fréttir vefjarins, en settur hefur verið upp hugbúnaður sem les fréttirnar fyrir þá sem það kjósa. Hugbúnaðurinn kallast Vefþulan og er byggður á talkerfi sem Hexia hefur þróað.
Í fréttum á mbl.is er nú að finna tengilinn „Upplestur á frétt“ og ef smellt er á hann er fréttin lesin upp fyrir lesandann ef hann er með hátalara tengda í eða við tölvuna eða heyrnartól. Hugbúnaðurinn sem sér um upplesturinn kallast Vefþulan, en í hvert sinn sem blaðamaður skrifar frétt á mbl.is er textinn sendur til Vefþulunnar sem fer yfir hann og býr síðan til hljóðskrána.
Þórarinn Stefánsson, framkvæmdastjóri Hexiu, sem smíðaði Vefþuluna, segir að hugbúnaðurinn hafi verið í undirbúningi undanfarin þrjú ár, en ný útgáfa hennar hafi verið kynnt 16. nóvember sl., á degi íslenskar tungu. „Röddin sjálf er verkefni Hexia, Háskóla Íslands og Símans, en forritið á bak við Vefþuluna er okkar verk,“ segir Þórarinn, en Ragnheiður Clausen lagði til hráefni í tölvuröddina.
„Ragnheiður las fyrir okkur algengustu orð í íslensku í öllum hljómum og föllum og úr því var tölvuröddin síðan gerð,“ segir Þórarinn en mbl.is er fyrsti fréttavefurinn sem tekur Vefþuluna í notkun.
Að sögn Þórarins hafa nokkrir opinberir vefir sett hana upp hjá sér og ýmsir séu með það í undirbúningi.