Buguð af háu bensínverði

Þegar fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði upp úr öllu valdi fyrir nokkrum árum seldu margir íbúðir sínar og stækkuðu við sig í öðrum sveitarfélögum. Þetta sama fólk, sem keyrir til höfuðborgarinnar á hverjum morgni vegna vinnu, íhugar nú alvarlega stöðu sína vegna gríðarlegra verðhækkana á eldsneyti.

Lítrinn af 95 oktana bensíni kostaði 114 kr. í júlí 2005 en 170 kr. núna. Þetta þýðir að það kostar rúmar tíu þúsund krónur að fylla 60 lítra tank á venjulegum fólksbíl. Í kjölfar hækkana er fólk farið að líta í kringum sig eftir öðrum ferðamáta. Borið hefur á minnkandi umferð á vegum landsins og fleiri bifreiðaeigendur en áður skila inn bílnúmerum.

Sveitarfélagið Árborg og Hveragerðisbær hafa sameinast um að sækja um einkaleyfi á rekstri almenningssamgangna milli Reykjavíkur, Hveragerðis og Selfoss. Er markmiðið að bjóða íbúum upp á þéttari og ódýrari samgönguleiðir en nú er. Sérleyfi fyrir leiðina milli Reykjavíkur og Selfoss rennur út um áramótin en handhafi leyfisins nú er rútufyrirtækið Þingvallaleið.

„Við erum í viðræðum við Strætó BS um að tengjast leiðakerfi þeirra. Af hálfu Vegagerðarinnar er þetta vel á veg komið og ég á ekki von á öðru en að þetta gangi upp. Þetta er knappur tími en við stefnum ótrauð á að þjónustan verði í boði frá og með næsta ári. Við leggjum mikla áherslu á tengingu við leiðakerfi Strætó,“ segir Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.

Aðspurð um fjölda ferða segir Ragnheiður að stefnt sé á að bjóða upp á 12 ferðir til höfuðborgarinnar á dag. „Það kostar um 1.300 kr. með rútu eins og er en við stefnum á að bjóða upp á strætóferðir fyrir helmingi lægra verð. Það yrði aðeins dýrara en almennt miðaverð innanbæjar í Reykjavík en samt miklu hagkvæmara fyrir íbúana heldur en að keyra sjálfir í bæinn,“ segir Ragnheiður. Markmiðið sé að hafa svipað fyrirkomulag og á Akranesi en strætóferðir þaðan til borgarinnar hafa gefist mjög vel.

„Þetta er mikið hagsmunamál fyrir fólkið hér í Árborg. Margir vinna í borginni og aðrir fara í stuttar ferðir. Stefnt er að því að vera með afsláttarkort, fólk geti keypt sér ársmiða og þar fram eftir götunum.“

Ragnheiður segist skynja miklar áhyggjur í samtölum við íbúana. „Fólk er mjög áhyggjufullt yfir því hvort þessar hækkanir á bensínsverði eigi engan endi að taka. Við viljum fá ríkið með okkur í verkefnið því sveitarfélögin hafa ekki miklar tekjur til þess að mæta þessu. Við fáum framlög frá Vegagerðinni en eigum eftir að fá á hreint hver sú upphæð verður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert