Ekkert finnst sé ekki leitað

 „Á meðan ekki er leitað, fagaðilar vita hvorki hvað mansal er né hvernig bregðast eigi við því og engin úrræði eru í boði fyrir fórnarlömbin, þá er engin von til þess að konur stígi fram og viðurkenni að þær séu fórnarlömb mansals,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, þegar hún er spurð hversu umfangsmikið vandamál hún telji mansal vera hér á landi.

Guðrún er ein þeirra sem sitja í starfshópi á vegum félagsmálaráðuneytisins sem um þessar mundir vinnur að því að semja aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn mansali. Í samtali við Morgunblaðið segist Guðrún fagna því að núna skuli loksins eiga sér stað vitundarvakning á þessu sviði, því til skamms tíma hafi mansal ekki verið á dagskrá hjá fagaðilum og því ekki verið hugað að því að greina og upplýsa um mansal hérlendis.

„Mansal í kynlífsiðnaði er alltaf falið í blómstrandi klámiðnaði. Það er því ómögulegt að greina á milli mansals, kláms og vændis. Sökum þessa þurfum við, ef við meinum það að við viljum losna undan því að vera flækt í vef mansals, að ráðast gegn klámiðnaðinum eins og hann leggur sig,“ segir Guðrún og bendir í þessu samhengi á að eitt mikilvægasta baráttutækið þar væri að banna kaup á vændi. Minnir hún á að meirihluti Íslendinga vilji banna kaup á vændi samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði og birt var í mars 2007.

„Eitt af því sem þó hefur verið gert á Íslandi og gefist hefur afar vel er bannið við einkadansi og síðar rekstri nektardansstaða. Ég held að þetta hafi verið mun öflugri og róttækari aðgerð en yfirvöld áttuðu sig á,“ segir Guðrún og telur það hafa verið mikið framfaraspor þegar nektarstaðir voru í framhaldinu bannaðir samkvæmt lögum sl. sumar. Með þessum aðgerðum hafi nektardansstöðum fækkað úr þrettán í einn. Segir hún þó enn til vansa að samhliða hafi verið opnað fyrir undantekningar fyrir rekstri nektardansstaða. „Það væri mikið þjóðþrifamál að losna við þann eina stað sem eftir er.“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert