Nokkuð kemur á óvart að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í maí skuli hækka frá fyrra mánuði eftir að hafa lækkað síðustu mánuði. Vísitalan í maí var 348,5 stig og nam hækkunin frá apríl 0,5% Síðastliðna þrjá mánuði lækkaði vísitalan um 1,6%.
Lítil fasteignaviðskipti hafa átt sér stað að undanförnu en samt hækkar vísitalan. Erfitt er að draga ályktanir af þessari stöðu en líklega hefur það sitt að segja að þau fasteignaviðskipti sem þó eiga sér stað eru ekki einkennandi fyrir markaðinn í heild, að mati Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings.
„Þessi hækkun stafar líklega af tvennum orsökum. Annars vegar er mögulegt að þær eignir sem hafa verið seldar á síðustu mánuðum séu fremur smáar eignir í fjölbýli og hafi því tiltölulega hærra fermetraverð en þær stærri, og hins vegar að viðskiptin eigi sér einkum stað með eignir miðsvæðis og síðan tiltölulega góðar eignir, með sérstökum einkennum, útsýni og þess háttar. Þeir sem eru að kaupa þær eignir eru gjarnan fjársterkir kaupendur,“ segir hann.
„Það er hins vegar ljóst að þessi hækkun endurspeglar ekki raunverulegt ástand á markaðnum enda er fasteignaverðsvísitalan ekki gæðaleiðrétt og þegar veltan minnkar jafnmikið og raun ber vitni geta einstakir eignaflokkar og gott markaðshæfi haft of mikil áhrif á vísitöluna.“