Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði í fréttum Útvarpsins, að fyrirtæki verði að leggja sitt að mörkum til að bregðast við samdrætti í hagkerfinu og útrásarfyrirtæki ættu að selja hluta af fjárfestingum sínum í útlöndum til að styrkja efnahagslífið.
Ágúst Ólafur sagði, að íslensk fyrirtæki ættu gríðarlegar eignir í útlöndum og velta sumra væri margföld á við íslenska ríkið. Það væri á ábyrgð þessara fyrirtækja að taka til í sínum ranni til að stuðla að betra umhverfi fyrir alla Íslendinga til lengri tíma. Íslensk stjórnvöld nái ekki markmiðum um jafnvægi nema fyrirtækin séu með.
Ágúst Ólafur sagði einnig fyllilega koma til greina að hækka veðhlutfall fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði til að blása lífi í fasteignamarkað.