Kraftur í kringum Ísland

Hópurinn úr Vestmannaeyjum sem siglir nú í kringum landið til …
Hópurinn úr Vestmannaeyjum sem siglir nú í kringum landið til styrktar Krafti.

Hópur níu frækinna Vestmannaeyinga er nú á leið til Reykjavíkur á tveimur slöngubátum og er ætlunin að sigla í kringum landið. Hópurinn sem kallar sig Kraftur í kringum Ísland hefur það að markmiði að vekja athygli á og styrkja Kraft sem er stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þess.

Hópurinn hittist klukkan fimm í morgun á smábátabryggjunni í Vestmannaeyjum og er nú rétt ókominn til Reykjavíkur. Þar mun hann dveljast fram á 17. júní en þá verður haldið áleiðis til Ólafsvíkur. Farið verður á um fimmtán áfangastaði. Hópurinn mun svo enda ferðina í Vestmannaeyjum þann 4. júlí á goslokahátíðinni. Hluti ferðalanganna verður í bílum sem fylgja bátunum eftir á landi.

Þorsteinn Þorsteinsson, meðlimur hópsins, segir hugmyndina hafa kviknað í október. Þá hafi þessi hópur viljað gera eitthvað skemmtilegt á bátum. Síðan vatt þessi hugmynd upp á sig, það hafi verið ákveðið að fara hringinn og styrkja eitthvað gott málefni í leiðinni. Kraftur hafi orðið fyrir valinu. Þorsteinn segir óákveðið hversu lengi siglt verði á hverjum degi, það fari eftir veðri og vindum.

Vel hefur gengið að afla verkefninu styrkja. Hildur Björk Hilmarsdóttir, varaformaður Krafts og verkefnastjóri Krafts í kringum landið, segir að búist hafi verið við góðum viðbrögðum en þetta sé þó að fara fram úr björtustu vonum. Hildur vill benda fólki á að boðið verður upp á ferðir með bátnum þegar hann er í höfn á hverjum áfangastað og einnig verði hægt að kaupa leggi milli áfangastaða því bátarnir tveir séu stórir og rúmgóðir.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja verkefnið er bent á að hringja í síma 907 2700 og eru þá gjaldfærðar 1.000kr.

Til að fræðast meira um verkefnið er bent á vef verkefnisins og vef Krafts.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert