„Próf standa alltaf fyrir sínu"

Hús Kennaraháskóla Íslands.
Hús Kennaraháskóla Íslands.

Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, lagði áherslu á það í ræðu sinni við síðustu brautskráningu skólans í dag að sameining hans og Háskóla Íslands breytir því ekki að menntun þeirra sem nú séu brautskráð frá Kennaraháskólanum standi sannarlega fyrir sínu.  

Hins vegar megi alltaf gera gott betur og mikilvægt sé að horfa fram á veginn. Bætt og aukið framhaldsnám fyrir kennara og aðrar uppeldisstéttir skapi aukin tækifæri til faglegrar þróunar í framtíðinni.

 Þá sagðist hann telja að með sameiningu þessara tveggja háskóla mun Háskóli Íslands styrkja sig, bæði hvað varðar kennslu og rannsóknir, á sviði menntavísinda. Í sameinuðum háskóla verði væntanlega unnt að virkja enn betur en nú er gert sérfræðiþekkingu í báðum háskólum til að efla kennaramenntun fyrir öll skólastig og aðra starfsmenntun uppeldis- og menntunarstétta til að efla menntavísindi. 

Hann þakkaði einnig menntamálaráðherra og Alþingi víðsýni og framsýni í þessu máli og sagði áratuga baráttu Kennaraháskólans fyrir lengingu kennaranáms nú lokið.

„Kennaraháskóli Íslands hefur á undanförnum misserum endurskoðað allt nám við skólann frá grunni og bauð frá síðastliðnu hausti nýtt fimm ára samfellt starfsnám til meistaraprófs á öllum námsbrautum við skólann, nám sem tekur mið af breyttum og sívaxandi kröfum samfélagsins og því besta sem læra má m.a. af öðrum þjóðum á þessu sviði,” sagði hann.

„Nú hefur Alþingi ákveðið að til þess að fá löggildingu til að starfa sem kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskólum þurfi allir þeir sem hefja nám frá og með næsta hausti að ljúka fimm ára háskólanámi og meistaragráðu. Þetta er stór áfangi í þróun kennaramenntunar og mun færa okkur Íslendinga í fremstu röð á þessum vettvangi.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert