Samningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Brimnesskóga undirritaður, sem var undirritaður nýverið, gerir ráð fyrir afnot af landi því, þar sem talið er að Brimnesskógur sá sem nefndur er í íslenskum fornritum hafi verið. Það er Steinn Kárason umhverfisstjórnunarfræðingur M.Sc. og garðyrkjumeistari sem er frumkvöðull að félagsstofnuninni. Markmið félagsins er að endurheimta hina fornu Brimnesskóga í Skagafirði með kynbótabirki, kynbættum reyni og víði úr Hrolleifsdal og Austurdal í Skagafirði.
Í samtali við Stein kom fram að nú er frágengið að félagið fær alls nær fimm tugi hektara lands til að hrinda áformun sínum í framkvæmd, en áður var búið að afmarka félaginu nokkurn landsskika þar sem undanfarin nokkur ár hefur verið plantað völdum plöntum sem ættir eiga að rekja til gömlu birkiskógaleifanna í Fögruhlíð í Austurdal og í Hrolleifsdal.
Fram til þessa hefur eingöngu verið plantað út ársgömlum plöntum í rúmlega tíu hektara lands, en nú, eftir að samningur er frágenginn, munu á næstu dögum verða settar niður á þriðja þúsund skógarplöntur, um tvö hundruð vefjaræktuð reynitré og um þrjátíu móðurtré af kynbættu birki, sem ætluð eru í framtíðinni til frætöku.
Sagði Steinn ánægjulegt að þessi samningur væri nú loks í höfn og því unnt að vinna því máli framgang af fullum þunga, að skila landinu til baka eins og það var á fyrstu árum byggðar í Skagafirði. Þá sagði hann mjög vaxandi áhuga á verkefninu bæði meðal heimamanna, en ekki síður á meðal brottfluttra Skagfirðinga.