Samið hefur verið um einkarétt á töku ísjaka úr Vatnajökli, í og við Jökulsárlón, til útflutnings. Ísinn er meðal annars notaður til að kæla drykki.
Svæðið tilheyrir samtökum landeigenda, Sameignarfélagsins Fells. Samningur var gerður við Benedikt G. Guðmundsson fyrir hönd tengdra félaga og markmið með honum er m.a. að nota ísinn til markaðs- og kynningarstarfs til framdráttar íslenskri ferðaþjónustu. Ísinn verður m.a. notaður til að markaðssetja nýtt vörumerki Scandic, ekki hvað síst í Asíu og Miðausturlöndum.
Benedikt er stofnandi Draugasetursins á Stokkseyri, sem síðan leiddi af sér stofnun Icelandic Wonders, sem er samheiti fyrir Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Öll er þessi starfsemi í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.
„Við erum með nokkrar sniðugar hugmyndir í tengslum við þetta verkefni sem ekki er alveg tímabært að greina frá í smáatriðum núna,“ segir Benedikt um framtakið. „Óhætt er hins vegar að fullyrða að samningur þessi mun í hið minnsta styrkja ferðaþjónustuna og vonandi auka enn frekar verðmæti landeiganda á þeim jörðum sem þarna eiga hlut að máli, að minnsta kosti til lengri tíma litið."