Mjög annasamt var hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins í nótt. Tveir karlmenn voru teknir fyrir innbrot og gróf líkamsárás var í miðborginni. Sextán ára drengur var svo tekinn fyrir hraðakstur.
Gróf líkamsárás átti sér stað í miðbænum fyrri hluta nætur. Ráðist var á karlmann og hann barinn margsinnis í höfuðið með golfkylfu. Er lögreglan kom á staðinn voru árásarmennirnir fjórir ennþá á svæðinu og reyndu þeir að flýja lögreglu. Voru þeir þó handteknir og voru þrír 17 ára og einn 18 ára. Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús en áverkar reyndust minni en í fyrstu var talið.
Lögreglan stöðvaði bifreið á Hafnarfjarðarvegi fyrir að aka á 135 km hraða en hámarkshraði er 80 km/klst. Er að var komið reyndist ökumaður bílsins ekki vera nema 16 ára gamall og var hann með fjóra unga farþega í bílnum. Hafði drengurinn tekið bifreið foreldra sinna traustataki. Voru foreldrar látnir vita og var hann sóttur á lögreglustöðina. Sagði lögreglan að það væri mesta mildi að ekki fór illa.
Tilkynnt var um innbrot í austurborginni. Þegar lögreglan kom á staðinn voru þar tveir karlmenn sem voru handteknir og færðir í fangageymslur.
Fangageymslur voru sneysafullar í nótt og mikið um útköll af öllu tagi.