Lögreglan á Höfn í Hornafirði segir daginn í dag vera dag umferðaróhappa. Fjögur óhöpp áttu sér stað síðastlinn sólarhring.
Eitt óhappið átti sér stað er bifhjóli var ekið á sauðkind. Í öðru tilviki missti ökumaður stjórn á bíl sínum, velti og hafnaði utan vegar. Er hann grunaður um ölvun. Ein bifreið lenti á brúarhandriði og einn óheppinn ökumaður missti hjólhýsi á hliðina í vindhviðu en á svæðinu var all hvasst í dag. Ekki urðu teljandi meiðsl á fólki í neinu þessara óhappa.
Lögreglan sagðist ekki hafa skýringu á þessum óvenju mikla fjölda slysa. Það hefði vissulega verið mikil umferð en ekkert sem skýrði fjöldann.