Erfið aðgerð framundan að Hrauni

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, segir að ekki hafi verið til búnaður á Íslandi sem nauðsynlegur er til að bjarga hvítabirninum lifandi, það er nægjanlega stórt og traust búr. Umhverfisráðherra hefur verið í stöðugu sambandi við Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöld á staðnum í dag en hún er stödd erlendis í fríi. 

Að sögn Þórunnar er reynslan af fyrri hvítabirninum fersk í hugum allra og sem betur fer tókst að loka vegum og ganga þannig frá á svæðinu þannig að fólki stafar ekki beinlínis hætta af dýrinu. „Það er forsenda þess að það er hægt að gera eitthvað meira," segir Þórunn.

Hún segir að lögregla hafi brugðist strax við þegar fréttist af hvítabirninum og gengið þannig frá að engum tækist að koma of nálægt dýrinu og skapa  þannig hættu.

Við höfum verið í sambandi við  sérfræðinga í Noregi, Danmörku og Kanada og úr varð að Danir eru reiðubúnir til að aðstoða okkur eins og þeir geta og við ákváðum að þiggja þá aðstoð. Eins og staðan er núna er verið að tryggja öryggi fólks á bæjunum, á Hrauni og bæjum í kring," segir Þórunn.

Hún segir að búast megi við að nóttin verði löng en von sé á Dönunum um miðjan dag á morgun og þá er hægt að ráðast í þá miklu aðgerð sem það er að reyna að bjarga dýrinu. „Það er björgunaraðgerð þar sem allt verður bókstaflega að ganga upp svo allt fari vel," segir Þórunn.

Þórunn segir að það verði að vera tryggt að dýrinu sjálfu stafi ekki hætta af geymslustaðnum. Það sé ekki einfalt að svæfa hvítabjörn eða halda honum sofandi og sú aðgerð í sjálfu sér getur hætt lífi bjarnarins, segir Þórunn. Hún segir að viss áhætta sé tekin með þessu en vonandi gangi þetta upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert