Fjörutíu prósent ljósmæðra munu hætta

Ljósmæður hafa áhyggjur af flótta úr stéttinni og að ekki …
Ljósmæður hafa áhyggjur af flótta úr stéttinni og að ekki verði hægt að manna stöður innan fárra ára. Mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Á næstu tíu árum munu fjörutíu prósent ljósmæðra á stærstu vinnustöðum þeirra fara á eftirlaun. Á þessum stöðum fara rúmlega níutíuprósent fæðinga fram. Ljósmæður flýja stéttina vegna launa.

Þrátt fyrir að ljósmæðranámið sé vinsælt og nýjar ljósmæður bætist við er ekki haft undan brottfalli úr stéttinni. Ljósmæður þurfa að hafa hjúkrunarfræðimenntun sem grunn fyrir ljósmæðranámið og hafa þær sótt í æ ríkari mæli í hjúkrunarfræðistörf þar sem launin eru betri. Þær hafa líka verið eftirsóttar í ýmis önnur störf sem eru bæði betur launuð og með minni ábyrgð, segir Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands.

Guðlaug segir að ljósmæður hafi dregist aftur úr í kjarabaráttu. ,,Ef við berum okkur saman við stéttir með svipaða menntun, sex ár, þá höfum við dregist langt aftur úr.” Samningar voru lausir þann 1. maí en ennþá hefur ekkert gerst í þeim málum.

Félagið hefur haft samband við forsætisráðherra, utanríkisráðherra og heilbrigðisráðherra og bent á ákvæði í stjórnarsáttmálanum þar sem kemur fram að endurmeta skuli sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.  Þær hafi bent á að þarna sé skýrt dæmi um kynbundið launamisrétti, það sé þarna bundið við heila stétt. Þess má geta geta að ekki einn karlmaður tilheyrir ljósmæðrastéttinni á Íslandi. Guðlaug segir að erindi þeirra hafi verið mætt með skilningi hjá ráðherrunum en BHM hópurinn sem þær tilheyra hafi beðið um fund með ríkisstjórn fyrir 16 dögum síðan en hann ekki fengist enn. Það til það gerist sé til lítils að hefja viðræður við samninganefnd ríkisins.

,,Við höfum mjög miklar áhyggjur af ástandinu, hvernig það á að takast að manna ljósmæðrastörf á næstu árum. Eins höfum við áhyggjur af því hvað gerist ef það næst ekki launaleiðrétting núna. Það er mikil ólga í fólki. Hvort það verði hópflótti úr stéttinni get ég ekki sagt, það verður hver og einn að meta fyrir sig hvað hann vill gera en já, það er mikil kergja í fólki,” sagði Guðrún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert