Fjörutíu prósent ljósmæðra munu hætta

Ljósmæður hafa áhyggjur af flótta úr stéttinni og að ekki …
Ljósmæður hafa áhyggjur af flótta úr stéttinni og að ekki verði hægt að manna stöður innan fárra ára. Mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Á næstu tíu árum munu fjöru­tíu pró­sent ljós­mæðra á stærstu vinnu­stöðum þeirra fara á eft­ir­laun. Á þess­um stöðum fara rúm­lega níu­tíu­pró­sent fæðinga fram. Ljós­mæður flýja stétt­ina vegna launa.

Þrátt fyr­ir að ljós­mæðra­námið sé vin­sælt og nýj­ar ljós­mæður bæt­ist við er ekki haft und­an brott­falli úr stétt­inni. Ljós­mæður þurfa að hafa hjúkr­un­ar­fræðimennt­un sem grunn fyr­ir ljós­mæðra­námið og hafa þær sótt í æ rík­ari mæli í hjúkr­un­ar­fræðistörf þar sem laun­in eru betri. Þær hafa líka verið eft­ir­sótt­ar í ýmis önn­ur störf sem eru bæði bet­ur launuð og með minni ábyrgð, seg­ir Guðlaug Ein­ars­dótt­ir, formaður Ljós­mæðrafé­lags Íslands.

Guðlaug seg­ir að ljós­mæður hafi dreg­ist aft­ur úr í kjara­bar­áttu. ,,Ef við ber­um okk­ur sam­an við stétt­ir með svipaða mennt­un, sex ár, þá höf­um við dreg­ist langt aft­ur úr.” Samn­ing­ar voru laus­ir þann 1. maí en ennþá hef­ur ekk­ert gerst í þeim mál­um.

Fé­lagið hef­ur haft sam­band við for­sæt­is­ráðherra, ut­an­rík­is­ráðherra og heil­brigðisráðherra og bent á ákvæði í stjórn­arsátt­mál­an­um þar sem kem­ur fram að end­ur­meta skuli sér­stak­lega kjör kvenna hjá hinu op­in­bera, einkum þeirra stétta þar sem kon­ur eru í mikl­um meiri­hluta.  Þær hafi bent á að þarna sé skýrt dæmi um kyn­bundið launam­is­rétti, það sé þarna bundið við heila stétt. Þess má geta geta að ekki einn karl­maður til­heyr­ir ljós­mæðrastétt­inni á Íslandi. Guðlaug seg­ir að er­indi þeirra hafi verið mætt með skiln­ingi hjá ráðherr­un­um en BHM hóp­ur­inn sem þær til­heyra hafi beðið um fund með rík­is­stjórn fyr­ir 16 dög­um síðan en hann ekki feng­ist enn. Það til það ger­ist sé til lít­ils að hefja viðræður við samn­inga­nefnd rík­is­ins.

,,Við höf­um mjög mikl­ar áhyggj­ur af ástand­inu, hvernig það á að tak­ast að manna ljós­mæðrastörf á næstu árum. Eins höf­um við áhyggj­ur af því hvað ger­ist ef það næst ekki launa­leiðrétt­ing núna. Það er mik­il ólga í fólki. Hvort það verði hóp­flótti úr stétt­inni get ég ekki sagt, það verður hver og einn að meta fyr­ir sig hvað hann vill gera en já, það er mik­il kergja í fólki,” sagði Guðrún að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka