Íslenskar fjallaleiðsögukonur og stallsystur þeirra ætla að storka hefðbundnum viðhorfum samfélagsins og sýna með táknrænum hætti að þær standa jafnt íslenskum körlum með því að klífa Hvannadalshnjúk. Ferðin er aðeins fyrir konur og greiða þær 81% af fullu verði ferðar á hnjúkinn en launamunur kynjanna er enn 10-19% á Íslandi.
Í fréttatilkynningu frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum kemur fram að launamunur kynjanna er ekki aðeins hvimleiður arfur fortíðarinnar heldur ólíðandi staðreynd í nútíma samfélagi.
„Ítrekaðar rannsóknir á launum kvenna og karla með sömu menntun og reynslu sýna svo að ekki verður um villst að hægt hefur þokast í átt að jafnri stöðu kynjanna þegar kemur að launamálum. Launamunur kynjanna er ennþá á bilinu 10–19% eftir því hvort um er að ræða laun á almennum vinnumarkaði eða hjá ríkinu.
Hinn 21. júní næstkomandi ætla Íslenskar Fjallaleiðsögukonur og stallsystur þeirra að storka hefðbundnum viðhorfum samfélagsins og sýna með táknrænum hætti að þær standa jafnt íslenskum körlum.
Um er að ræða hefðbundna gönguferð á hæsta tind landsins, Hvannadalshnúk (2110 m), með þeirri undantekningu þó að ferðin verður aðeins opin konum, sem þar að auki greiða aðeins 81% af fullu verði ferðarinnar.
Með þessu vilja Íslenskir Fjallaleiðsögumenn leggja sitt af mörkum til þess að undirstrika réttmæta kröfu um jafna stöðu kvenna og karla.
Þess má að lokum geta að starfsfólk Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, konur og karlar, standa jafnfætis í launamálum," að því er segir í tilkynningu.