Útlendingur sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar síðast liðinn þriðjudag var með um 550 málverk sem hann framvísaði ekki við komuna til landsins. Þar sem maðurinn sættist ekki á tollasekt var málið sent til lögreglunnar á Seyðisfirði. Í sömu ferð kom upp eitt stærsta fíkniefnamál sögunnar á Íslandi en um 193 kg. af fíkniefnum fundust í húsbifreið Hollendings.
Í dagbók lögreglunnar á Seyðisfirði kemur fram að útlendingar á tveimur bifreiðum voru teknir fyrir utanvegaakstur í Hrafnkelsdal í síðustu viku og fengu þeir sekt fyrir athæfið sem þeir greiddu strax
Tveir unglingar voru teknir fyrir veggjakrot á undirstöður brúarinnar yfir Eyvindará og viðurkenndu þeir verknaðinn.
Í vikunni urðu tvö umferðaróhöpp og fjórar tilkynningar bárust um að ekið hefði verið á lömb. 25 ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur, þar af var einn tekinn á Hárekstaðaleið á 132 km. hraða en hann hafði einnig verið tekinn fyrr um daginn fyrir of hraðan akstur í öðru umdæmi.