Sparar útgerðum milljónir

 Íslenska fyrirtækið Marorka hefur verið tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2008 fyrir orkustjórnunarkerfi í skip. Alls eru tilnefningarnar 37 en Marorka fær þá einu frá Íslandi. Verðlaunin verða afhent á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í haust.

Marorka hefur undanfarin ár verið með hugbúnaðarkerfi í þróun sem ætlað er að stjórna betur olíubrennslu og orkunotkun um borð í skipum, hvort sem það eru fiskiskip, flutningaskip eða skemmtiferðaskip. Kerfið heldur einnig utan um alla umhverfisþætti skipanna. Á tímum hækkandi olíuverðs hefur eftirspurn eftir þessum búnaði stóraukist en kerfið getur sparað olíunotkun um 3-10%, allt eftir því um hvaða skipategund er að ræða. Sparnaður fyrir skipaeigendur getur skipt mörgum milljónum króna.

Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku, sagðist í samtali við Morgunblaðið, vera stoltur og ánægður með tilnefninguna, hún væri mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess, en þeir eru alls 20 hér á landi. Að auki er Marorka með dótturfélög í Noregi og Danmörku um rekstur söluskrifstofa. Á skömmum tíma hefur fyrirtækið vaxið hratt, en Jón Ágúst byrjaði einn að vinna í þessari hugmynd og fyrir aðeins sex árum voru starfsmenn Marorku þrír talsins. Fyrstu árin var reksturinn erfiður, eins og oft vill verða hjá sprotafyrirtækjum, en nú horfa Marorkumenn bjartir fram á veginn.

Að sögn Jóns er Marorka farin að starfa með mörgum af stærstu útgerðum Norðurlanda, en alls hafa hátt í 40 kerfi verið seld um allan heim á síðustu árum, þó aðallega á Norðurlöndum. Kerfið er þróað og framleitt hér á landi og því algjörlega um íslenskt hugvit að ræða. Jón Ágúst segir sambærilegan búnað ekki í framleiðslu annars staðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert