Aldrei fyrr hafa jafnmargir komið saman á Rútstúni í Kópavogi 17. júní og í þetta sinn. Talið er að 16 þúsund manns hafi notið fjölskylduskemmtunarinnar, leiktækja, söng- og skemmtiatriða og þjóðhátíðarávarpa.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri sagði í ávarpi sínu að bjartsýni væri besti aflgjafi þjóðarinnar þegar á móti blési.
„Efnahagsumhverfið er sveigjanlegt og verður fljótt að ná fyrri styrk ef við sýnum fyrirhyggju. En þá dugir enginn bölmóður. Það má ekki tala ástandið niður eins og mér finnst ráðamenn þjóðarinnar hafa verið að gera,“ sagði Gunnar meðal annars. „Við verðum að nýta auðlindirnar okkar. Nýting og umhverfisvernd þurfa ekki að vera andstæður, þetta tvennt getur spilað saman, öfgar á báða vegu eru afleitar. Fiskveiðiaflinn hefur reynst hverfull en enn eru ýmsir möguleikar í virkjun vatnsafls og gufuafls. Fjármunir detta ekki af himnum ofan. Þeirra þarf að afla með skynsemi og fyrirhyggju og raunsæi.“
Gunnar I. Birgisson vék auk þess að breyttri samfélagsgerð.
„Sjálfstæði íslensku þjóðarinnar fékkst ekki átakalaust og við skulum hafa hugfast að sjálfsstjórn er engan veginn sjálfgefin í þessari veröld okkar,“ sagði hann. „Nú flýr enginn Ísland eins og í þrengingunum í kringum aldamótin 1900 þegar þúsundir Íslendinga fluttust búferlum til Vesturheims. Nú flýr fólk hingað til okkar, fólk sem hefur reynt á eigin skinni að sjálfstæði og mannréttindi séu ekki sjálfsagðir hlutir.“
Linda Udengård, deildarstjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ, segir í tilkynningu, gleðilegt hve hátíðarhöldin í Kópavogi tókust vel.
„Veðrið lék við okkur og aðsóknin fór fram úr okkar björtustu vonum. Það er bersýnilegt að Kópavogsbúar sækja hátíðarhöld eins og þessi í sífellt ríkara mæli í sinni heimabyggð.“