Ætti ekki að vera neitt vandamál að sleppa birninum

Búrið, sem dýrið verður sett í, flutt úr vél Icelandair …
Búrið, sem dýrið verður sett í, flutt úr vél Icelandair Cargo á Akureyrarflugvelli. Ekið verður með búrið norður á Skaga. mbl.is/Skapti

Carsten Grøndahl, danski sérfræðingurinn sem kominn er til landsins til þess að fanga hvítabjörninn við Hraun á Skaga, sagði við Morgunblaðið við komuna til Akureyrar um þrjúleytið, að ekki ætti að vera neitt vandamál að sleppa dýrinu við Grænland.

„Ég hef að vísu bara séð dýrið á myndum en ég sé ekki betur en björninn sé sterklegur og heilbrigður. Það ætti því ekki að vera neitt vandamál að sleppa honum ef við náum að svæfa hann og koma í búr.“

Með Carsten í för er tíu ára sonur hans, Niels Ulrik. För Carstens bar svo brátt að að ekki tókst að koma drengnum í pössun þannig að hann var drifinn með! "Mamma hans er veik og mamma mín á ferðalagi," sagði Carsten.

Þyrla Landhelgisgæslunnar átti að fljúga með Carsten norður á Skaga, og er væntanlega á leiðinni núna. Ekið er með búrið frá Akureyri norðureftir. „Ef dýrið hefur enn hægt um sig og verður rólegt þegar ég kem á staðinn mun ég reyni að skjóta í það örvum sem fyrst til þess að svæfa það,“ sagði Carsten við Morgunblaðið. Hann sagði að nokkrum "sterkum körlum" ætti ekki að verða skotaskuld úr því að lyfta birninum inn í búrið í þar til gerðum börum og þegar búið væri að læsa dýrið inni myndi hann vekja það strax, a.m.k. til hálfs.

Björninn getur dvalið lengi í búrinu, þótt það sé ekki mjög stórt, segir Carsten. „Við höfum flutt hvítabjörn í búri frá Ítalíu til Danmerkur. Það tók þrjá daga og gekk eins og í sögu.“

Spurður hvernig birnir bregðist við þegar örvum er skotið í þá segir Carsten að þeir taki gjarnan á sprett, en yfirleitt ekki í átt að húsum eða fólki sem það kann að sjá, heldur í aðra átt - í skjól. Það ætti síðan að vera sofnað eftir 5-7 mínútur. „Dýrið gæti hlaupið til hafs þar sem það er nálægt fjörunni, en það yrði reyndar slæmt því það er ekki gott að eiga við dýrið ef það sofnar í sjónum. “

Carsten hafði aðeins séð dýrið á myndum þegar hann ræddi við blaðamenn, en sagði að eftir þeim að dæma væri hér um að ræða ungt karladýr, hraustlegt og alls ekki svangt.

Carsten Grøndahl og sonur hans heilsa áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar
Carsten Grøndahl og sonur hans heilsa áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar mbl.is/Skapti
Þyrla Landhelgisgæslunnar á Akureyri í dag. Áhöfn þyrlunnar bíður átekta.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á Akureyri í dag. Áhöfn þyrlunnar bíður átekta. mbl.is/skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert