Forsætisráðherra bjartsýnn

Forsætisráðherra í ræðustól.
Forsætisráðherra í ræðustól. mbl.is/G. Rúnar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gerði efnahagsástandið að umtalsefni í ávarpi sínu á Austurvelli. Sagði Geir að Íslendingar hafi árið 1969 tekist á við einhverja erfiðustu kreppu síðustu áratuga vegna aflabrests og verðhruns á erlendum mörkuðum.

Erfiðleikarnir þá voru mun meiri en nú. En með samstilltu átaki réð þjóðin við vandann og í hönd fóru blómleg ár. „Ég er þess fullviss að svo verði einnig nú," sagði Geir.

Höfum góða von um að hræringar séu að ganga yfir

Ríkisstjórnin sem tók við fyrir ári síðan tók, að sögn Geirs, við góðu búi, meira að segja óvenjulega góðu búi.

„En skömmu eftir að hún var mynduð hófust miklar hræringar í efnahagslífi heimsins, sem við sjáum ekki enn fyrir endann á en höfum þó góða von um að séu að ganga yfir.

Erlendir fjármálamarkaðir hafa gengið í gegnum meiri sviptingar en um áratugaskeið og lánsfjárkreppa, sem af þeim hefur leitt, hvarvetna sagt til sín. Jafnvel virðulegustu og rótgrónustu fjármálastofnanir veraldar hafa lent í miklum erfiðleikum, tapað gríðarlegum fjármunum og sumar orðið gjaldþrota.

Eins og íslenskt efnahagslíf hefur þróast á síðustu árum, orðið opnara, frjálsara og alþjóðlegra, var við því að búast að alþjóðlegar hræringar sem þessar segðu til sín hér sem annars staðar. Það er hinn nýi tími, sem ekki verður snúið frá," segir Geir.

Verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum

Hluti þess nýja alheimsvanda, sem nú er við að fást, birtist okkur í stórhækkuðu heimsmarkaðsverði á ýmsum nauðsynjum, svo sem eldsneyti og matvælum, segir forsætisráðherra.

„Það segir sig sjálft að slíkar breytingar virka sem skattur á þjóðarbú okkar og rýra óhjákvæmilega kjör allra í landinu. Þar við bætist meiri lækkun á gengi krónunnar en búist hafði verið við, m.a. vegna breytts fjárstreymis inn og út úr landinu. Öll verðum við að laga okkur að hinum breyttu utanaðkomandi aðstæðum, jafnt fyrirtæki sem einstaklingar og opinberir aðilar. Gleymum því þó ekki hve þessi þróun leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en okkur og verst þær sem síst máttu við nýjum áföllum.

Við þessar aðstæður kemur sér vel að hafa búið í haginn á undanförnum árum. Nú skiptir miklu að ríkissjóður er nánast skuldlaus og lífeyrissjóðakerfið firnasterkt, með miklar eignir á bak við sig innan lands og utan. Þótt verðbólgan sé óviðunandi um þessar mundir eru góðar líkur á því að hún gangi niður á tiltölulega skömmum tíma. Það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir að tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis," segir Geir.

Fátt verðmætara en traust og trúverðugleiki

Þegar litið er til þess hvernig staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýnir sig að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. Slíkir eiginleikar eru ekki aðeins verðmætir í fari einstaklinga, heldur eiga þeir einnig við um þjóðir og fyrirtæki. Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin. Bankastarfsemi grundvallast á gagnkvæmu trausti," að sögn Geirs H. Haarde.

 
Gæti verið skynsamlegt að breyta gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti

Geir sagði í ávarpi sínu að spyrna þurfi við fæti og bregðast við hinum gríðarlegu hækkunum á innfluttu eldsneyti. „Eina leiðin í því efni, sem skilar varanlegum árangri, er að draga úr notkuninni með minni akstri og betri nýtingu, notkun sparneytnari ökutækja, tilflutningi yfir í aðra orkugjafa o.s.frv.

Við eigum ýmissa kosta völ í þeim efnum. Nauðsynlegt er að efla fræðslu um svokallaðan vistakstur. Skynsamlegt gæti einnig verið að breyta fyrirkomulagi gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti í þessu skyni en einnig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Farartæki sem knúin eru með óhefðbundnum orkugjöfum njóta þegar skattalegra ívilnana.  Ég hvet almenning til að skoða vandlega allar færar leiðir í þessum efnum.  Þjóðin verður að breyta neyslumynstri sínu og framlag hvers og eins skiptir máli, bæði fyrir viðkomandi einstakling en einnig heildina.

Við erum góðu vön, Íslendingar, og svo verður auðvitað áfram. Þó svo að lífskjör versni um stundarsakir verða þau eigi að síður mun betri en fyrir fáum árum og betri en víðast hvar með öðrum þjóðum. Stoðir efnahagsstarfseminnar eru styrkar og þjóðin baráttuglöð. Íslendingar hafa svo sannarlega sýnt það í sögu sinni að þeir geta tekist á við erfiðleika og sigrast á þeim, erfiðleika sem eru miklu meiri en þeir sem við þykjumst sjá að séu framundan á næstu mánuðum.

Við getum gengið á vit framtíðarinnar, ekki aðeins með von, heldur einnig vissu um að farsæld bíði okkar. Slík vissa byggist á því hvað þjóðfélag okkar hefur náð miklum þroska og því hvað mikill kraftur býr í þjóðinni," segir forsætisráðherra.

Samkennd Íslendinga þegar náttúrhamfarir eiga í hlut

Hann gerði Suðurlandsskjálftann að umtalsefni í ávarpi sínu á Austurvelli.

„Ég lýsti því yfir eftir jarðskjálftann 29. maí að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að koma þeim sem orðið hafa fyrir tjóni til hjálpar. Þegar hefur verið tryggt fjármagn í því skyni og sett bráðabirgðalög til að bæta hag tjónþola. Það er mikil guðsblessun að ekki varð manntjón en ljóst er að margir hafa orðið fyrir eignatjóni og margt sem þarf að endurnýja á heimilum víða.

Við leggjum áherslu á að tryggja öryggi þeirra sem búa á skjálftasvæðinu og ætlum að efla rannsóknir svo að veita megi eins miklar varnir og hafa þann viðbúnað, sem kostur er. Við þökkum af alúð starfsmönnum almannavarna og Rauða krossins, lögreglu, björgunarsveitum, heilbrigðisstarfsfólki og öllum sem komið hafa til aðstoðar við þessar aðstæður. Við atburði eins og þessa stöndum við Íslendingar saman sem einn maður. Fyrir því er margföld reynsla," segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra í þjóðhátíðarávarpi sínu á Austurvelli. 

Að loknu ávarpi forsætisráðherra kom fjallkonan í ár, leikkonan Elma Lísa Gunnarsdóttir og flutti ljóð. 

Fjöldi barna mun taka þátt í þjóðhátíðardagskránni í dag.
Fjöldi barna mun taka þátt í þjóðhátíðardagskránni í dag. mbl.is/RAX
Leikkonan Elma Lísa Gunnarsdóttir flutti ávarp fjallkonunnar.
Leikkonan Elma Lísa Gunnarsdóttir flutti ávarp fjallkonunnar. mbl.is/G. Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka