Skar íslenska fánann á Stjórnarráðinu

Lögregla stendur vörð við Stjórnarráðið
Lögregla stendur vörð við Stjórnarráðið mbl.is/Dagur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók nú á fimmta tímanum karlmann sem hafði klifrað upp á Stjórnarráðið og skorið íslenska fánann í ræmur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki vitað hvað manninum gekk til með athæfinu. Að öðru leyti hafa hátíðarhöldin gengið vel og tugir þúsunda í miðborginni enda veðrið mjög gott.

Í tölvupósti sem mbl.is hefur borist kemur fram að það hafi verið stjórnleysingjar sem skáru íslenska fánann og strengdu fána Jörundar hundadagakonungs á þak Stjórnarráðsins.

„Rétt í þessu var byltingarfáni Jörundar Hundadagakonungs strengdur á fánastöng á þaki stjórnarráðsins. Þar flöktir hann ásamt íslenska fánanum sem án efa hefur vanhelgast.

Þó Jörundur hafi ekki verið algjör anarkisti, heldur krýnt sig sem valdhafa Íslands, var tilræði hans eina almennilega tilraunin til að koma af stéttaskiptingu og misrétti á Íslandi.

Við leggjum engar sérstakar mætur á Jörund, frekar en nokkurn annan valdhafa, en metum tilraunir hans til að færa valdið frá toppi píramídans til almennings.

Fyrir það virðum við hann og höldum uppi hans heiðri, sem og allra þeirra sem berjast gegn ójöfnuði, valdníðslu og óréttlæti," að því er segir í tölvupóstinum.

Fáni Jörunds hundadagakonungs dreginn á hún.
Fáni Jörunds hundadagakonungs dreginn á hún.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka