Hvítabjörninn sem gekk á land við Hraun á Skaga í fyrradag var drepinn um kvöldmatarleytið í gær. Til stóð að svæfa dýrið og flytja það á ný til heimkynna þess við Grænland, en styggð kom að birninum þegar bílar nálguðust hann löturhægt, hann stefndi í sjó fram og stjórnendur á vettvangi töldu ekki annað forsvaranlegt en skjóta dýrið til ólífis. Danski sérfræðingurinn, Carsten Grøndahl, sem kom til landsins í gær til þess að skjóta deyfilyfi í dýrið, komst aldrei nógu nálægt því og kvaðst í samtali við Morgunblaðið algjörlega sammála því að eini kosturinn í stöðunni hefði verið að aflífa dýrið.
Ástand bjarndýrsins var ekki gott. Það kom í ljós við skoðun eftir að það var drepið. Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra, sagði að það hefði verið mjög horað og með sár í bógkrikum sem benti til þess að það hefði synt mikið. „Það hefði jafnvel getað riðið dýrinu að fullu ef við hefðum svæft það. Það er mikill kraftur í þessum dýrum og björninn hreyfði sig hratt og til þess að afstýra hættu urðum við því miður að gera það sem við gerðum.“
Dýrið hélt sig nánast á sama stað frá því fyrst varð vart við það í fyrradag þar til það var skotið í gær; í æðarvarpinu á milli bæjanna Hrauns I og II. Þess var freistað að nálgast dýrið á tveimur bílum undir kvöldmat í gær en þegar annar þeirra var kominn nokkuð nálægt kom styggð að dýrinu og það fór út í vatn sem er á milli bæjanna.
Þegar dýrið fór út í vatnið var bílnum, sem Daninn var í með byssuna, ekið að bakkanum þar sem það virtist ætla að koma á land, en þá sneri dýrið við og fór annars staðar upp úr, tók þar á sprett og niður í fjörukambinn. Þegar það stefndi augljóslega á haf út var ákveðið að fella dýrið. „Ef við hefðum misst björninn út í öldurótið hefðum við týnt honum; það var engin leið að fylgja honum eftir. Því miður,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, við Morgunblaðið.
Carsten hinn danski, sem var við öllu búinn með byssuna í bílnum, sagði það afar leiðinlegt að ekki skyldi takast að ná dýrinu lifandi en „yfirlögregluþjónninn átti ekki annarra kosta völ úr því sem komið var. Þetta var hárrétt ákvörðun“.
Þórunn sagði það inni í myndinni að Íslendingar eignuðust búr eins og það sem flutt var inn en lagði einnig ríkulega áherslu á að aðstæður í hafinu yrðu skoðaðar til að athuga hvort von væri á fleiri björnum. „Við þurfum að búa okkur undir það.“ skapti@mbl.is
Karen Helga varð fyrst vör við björninn þegar hún elti tíkina sína, Týru, út í æðarvarpið. Þegar hún varð vör við hvítabjörninn hljóp hún að húsinu dauðhrædd. Karen segist þó ekki hrædd við að fara aftur út að leika sér. „Nei, ég held að það komi ekki annar hér. Pabbi vonar líka að næsti komi annars staðar. En ég mun líta í kringum mig næstu daga.“
Þegar Karen hljóp aftur að bænum skildi hún hundinn eftir og vinnumaðurinn á bænum, Grænlendingurinn Ísak Christiansen, hljóp út í æðarvarpið í fyrradag til að ná í hann. „Jú, ég verð að viðurkenna að ég var svolítið hræddur,“ sagði hann við Morgunblaðið. „Enda var ég ekki nema 50 metra frá birninum þegar ég fann hundinn.“
Ísak er í námi í landbúnaðarskóla á Grænlandi og dvölin á Hrauni er hluti námsins. Það er kannski ótrúlegt en hann hefur aldrei áður séð ísbjörn áður!
Aðspurður segir Steinn Rögnvaldsson, bóndi á Hrauni II, að afleiðingarnar verði ekki að fullu ljósar fyrr en næsta vor „en ég fór og skoðaði áðan og við fyrstu sýn virtist mér ótrúlega gott stand á þessu. Bjarndýrið var líka svo rólegt og þegar það hreyfði sig, þá fór það afar hægt um. Það virðist því ekki mikið um að fuglar hafi yfirgefið hreiður og björninn hefur ekki tekið mikið, þó eitthvað“.
Steinn segist finna fyrir ákveðnum létti yfir að nú sé þessu ástandi lokið og hefðbundið heimilislíf taki við.