Harðari tónn í garð samstarfsflokksins

mbl.is/Júlíus

Búast má við að tónn þingmanna Sjálfstæðisflokksins eigi eftir að harðna í garð Samfylkingarinnar á næstu misserum og afstaðan verði eindregnari í málamiðlunum stjórnarflokkanna. Vísbending um það er fundur umhverfisnefndar Alþingis á föstudag. Þar stóðu sjálfstæðismenn fyrir því að landsskipulag, sem umhverfisráðherra hefur beitt sér fyrir, var tekið út úr nefndaráliti. Enda er engin stemning fyrir því meðal stórs hóps þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það verði að veruleika.

Er það gagnrýnt að færa eigi vald frá sveitarfélögum til umhverfisráðherra og að undir búi að nýta eigi ákvæðið til að standa í vegi fyrir tilteknum framkvæmdum, svo sem stóriðju. Þannig vilji „höfuðborgarmenn“ skipuleggja úrræði fólks á landsbyggðinni.

Þá gagnrýnir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinguna fyrir stefnuleysi í orku- og virkjanamálum. Hann bendir á að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra kvarti undan því að hafa ekki lagalegt svigrúm til að stöðva stóriðjuframkvæmdir á sama tíma og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra taki skóflustungu að nýju álveri í Helguvík.

Björgvin hafi hinsvegar líka beitt sér gegn virkjunum í neðri Þjórsá, þrátt fyrir að hluta af orkunni í álverið eigi að sækja þangað. „Ég fagna stuðningi hans við álver í Helguvík og að honum hafi þá snúist hugur varðandi virkjanirnar í neðri Þjórsá.“

Fljótlega eftir að ríkisstjórnarsamstarfið hófst var eftir því tekið að þingmenn og jafnvel ráðherrar Samfylkingarinnar lágu ekki á gagnrýni sinni í garð samstarfsflokksins. Og annar bragur á en í fyrri ríkisstjórn. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra lýsti því raunar í bloggi sínu sem meðvituðu bragði, að skerpa á ágreiningi í minni málum til að undirstrika muninn á flokkunum. Samfylkingarmenn sem rætt var við gera þó lítið úr því að þetta sé skipulegur skæruhernaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert