Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot

Steinunn Ásmundsdóttir

Ungur karlmaður var í Héraðsdómi Austurlands í dag sýknaður af ákæru fyrir að hafa framið kynferðisbrot gagnvart lítilli frænku sinni. Bótakröfu gegn honum var vísað frá dómi. Pilturinn var 17 eða 18 ára er meint brot áttu að hafa verið fram og stúlkan sjö eða átta ára.

Var hann ákærður á síðasta ári fyrir að hafa á árinu 2002 eða 2003, káfað á kynfærum stúlkunnar, sem fædd er 1995, og sett fingur í leggöng hennar. Á þessi misnotkun að hafa átt sér stað á heimili stúlkunnar.

Við munnlegan málflutning kom fram að aðeins væri ákært fyrir það atvik, sem talið væri að faðir stúlkunnar hefði orðið vitni að á árinu 2002 eða 2003, en þá hefði pilturinn verið 17 eða 18 ára gamall og því sakhæfur. Stúlkan sagði við vitnaleiðslur að pilturinn, en þau eru systrabörn, hafa misnotað hana þegar hún var lítil. Nánar aðspurð sagði hún að hann hefði alltaf verið að káfa á henni. Kvaðst hún ekki muna hvenær hann káfaði á henni fyrst en taldi að þá hefði hún verið um þriggja eða fjögurra ára gömul. Hún sagðist ekki muna hversu oft þetta hefði átt sér stað en það hefði verið oft, allavega oftar en fimm sinnum og kannski oftar. Þessir atburðir hefðu átt sér stað á heimili hennar þegar hann var í heimsókn hjábróður hennar en hann hefði verið tíður gestur á heimilinu. Oftast hefði þetta verið að kvöldi til en stundum að morgni. Pilturinn hefur hins vegar staðfastlega neitað öllum sakargiftum.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að við mat á framburði stúlkunnar beri að hafa í huga að hún er ung að árum og að fimm til sex ár eru síðan ætluð misnotkun á að hafa átt sér stað. Engu að síður verður ekki fram hjá því litið að ýmis atriði í framburði piltsins eru ekki í samræmi við skýrslur vitna í málinu.

Faðir stúlkunnar hefur borið um það að hafa séð, inn um opnar dyr á hjónaherbergi á heimili sínu, stúlkuna liggja á bakinu og piltinn  með höndina í klofinu á henni. Taldi hann víst að þau hefðu bæði orðið hans vör því þau hefðu stokkið á fætur og farið inn í sitt hvort herbergið. Stuttu síðar hefði hann farið til dóttur sinnar, sem hefði verið skælandi inni í herberginu sínu, og rætt eitthvað við hana, en þó ekki um atvikið. Hélt faðir stúlkunnar að þetta hefði átt sér stað annaðhvort árið 2002 eða 2003.

Stúlkan, sem samkvæmt ofangreindu hefur verið 7 eða 8 ára gömul þegar umrætt atvik á að hafa átt sér stað, kvaðst hins vegar ekki minnast þess að nokkur hefði séð til þeirra  eða komið að þeim þegar pilturinn hefði verið að káfa á henni. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún ekki minnast þess að faðir hennar hefði komið að þeim við slíkar aðstæður.

Stúlkan sagðist hins vegar muna eftir að hafa heyrt föður sinn skamma piltinn og hann afsaka sig og segja að hún hefði viljað þetta. Faðir stúlkunnar kannaðist hins vegar ekki við að hafa skammað piltinn í kjölfar fyrrgreinds atviks og sagðist raunar ekki hafa rætt atburðinn við hann fyrr en í nóvember síðastliðinn.

Móðir stúlkunnar staðfesti og hér fyrir dómi að hafa ekki rætt þetta atvik við piltinn fyrr en eftir að málið kom upp síðastliðinn vetur. Þá kom fram hjá föðurnum að eiginkona hans hefði í fyrstu viljað þagga málið niður. Þá kannaðist bróðir stúlkunnar ekki við hafa heyrt foreldra sína ásaka piltinn um nokkuð eða skamma hann, nema fyrir það eitt að vera alltaf í tölvunni. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert