Þverárfellsbjörninn smitaður af þráðormi

Tríkínum Trichinella þráðormur
Tríkínum Trichinella þráðormur

Ísbjörninn sem felldur var skammt frá Þverárfellsvegi 3.júní var smitaður af hinum illskeytta þráðormi tríkínum Trichinella. Helmingur hvítabjarna á Austur Grænlandi eru smitaðir.

Rannsóknir Karls Skírnissonar dýrafræðings á Tilraunastöðinni á Keldum á ísbirninum sem felldur var skammt frá Þverárfellsvegi þann þriðja júní sýndu að dýrið var smitað af tríkínum Trichinella sp. Kom það ekki á óvart því rannsóknir danskra sérfræðinga á ísbjörnum frá Austur-Grænlandi sýndu að þar var um helmingur fullorðinna ísbjarna smitaður af tríkínum á 9. áratugnum. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Keldum.

Líkur á smiti aukast eftir því sem ísbirnir eldast. Þverárfellsbjörninn var orðinn miðaldra. Þótt nokkur fita hafi verið á honum var hann samt óvenju léttur miðað við árstíma sem bendir til þess að árangur hans við kópaveiðar á ísnum á útmánuðum hafi verið lélegur.

Ósagt skal látið hvort tríkínurnar höfðu áhrif á hreyfigetu dýrsins eða hvort einhverjir aðrir sjúkdómsvaldar voru líka að hrjá dýrið. Veirufræðingar á Keldum munu innan skamms leita að mótefnum  í blóði dýrsins gegn nokkrum þekktum veirusjúkdómum. Hraunbirnan verður innan tíðar rannsökuð á sama hátt á Tilraunastöðinni á Keldum.

Tríkínur eru þráðormar sem eru illskeyttir sjúkdómsvaldar í mörgum tegundum spendýra, meðal annars í refum, hundum, og nagdýrum. Sníkjudýrið lifir líka auðveldlega í mönnum en menn smitast ekki nema við neyslu á hráu kjöti.

Tríkínur valda sársaukafullum sjúkdómi þar sem lirfurnar búa um sig í vöðvum og trufla hreyfigetu dýranna. Mikið af lirfum safnast fyrir í vöðvum sem krefjast mikils blóðsteymis, til dæmis í tungu, kjálkavöðva, þind og hjarta en lirfurnar berast út um líkamann með blóðrásinni.

Tríkínur hafa einu sinni áður fundist áður í ísbirni á Íslandi en sá var skotinn norður á Hornströndum á 7. áratugnum. Tríkínur gætu auðveldlega haslað sér völl í íslensku lífríki, til dæmis ef refur eða hræétandi ránfuglar kæmust í kjöt af tríkínu-smituðum ísbirni.

Vegna þessa er mikilvægt að farga ísbjarnarhræjum sem hér kunna að finnast eins fljótt og völ er á.

Fljótlega verður rannsakað hvort birnan við Hraun var með tríkínur en Guðnýjarbjörninn margfrægi á Bolungarvík var ekki smitaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert