Íbúar í Bryggjuhverfinu í Reykjavík mega búast við því að langþráð hreyfing komist á skipulagsmál í hverfinu á næstunni, þótt enn sé nokkuð í að nágranninn, Björgun hf., flytjist þaðan alfarinn, líklegast upp í Álfsnes. Fyrirtækið leggur til að deiliskipulagi svæðisins verði breytt svo lóð þess megi aðskilja betur frá íbúðahverfinu, þar megi gera sjö metra háa jarðvegsmön til að draga úr hljóðmengun og sandfoki, auk þess að á deiliskipulagi verði fyrirhuguðum byggingum vestan hverfisins breytt úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Viðræður um þetta hafa lengi staðið yfir og um varanlegan flutning Björgunar enn lengur eða árum saman.
Eftir umfjöllun ráðsins, fáist þar jákvæð niðurstaða, verður hægt að útbúa formlega deiliskipulagstillögu og auglýsa hana. Það ferli tekur um þrjá mánuði en getur verið lengra ef margar athugasemdir berast. Aðspurð segir Hanna Birna hins vegar að skipulagsvinna á svæðinu miði að því að Björgun fari þaðan áður en yfir lýkur. „Mitt mat er að niðurstaða um framtíðarstaðsetningu Björgunar gæti náðst innan tveggja ára. Og ég held að það sé varlega áætlað að innan fimm ára geti fyrirtækið verið farið af svæðinu,“ segir Hanna Birna.
Áður en þetta getur gerst þarf að breyta aðalskipulagi Reykjavíkurborgar til að gera ráð fyrir starfseminni í Álfsnesi, ljúka við umhverfismat, gera deiliskipulag og klára hafnargerð fyrir nýja aðstöðu Björgunar, sem þarf eðli málsins samkvæmt að hafa aðgang að sjó.