Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að gera allt í sínu valdi til þess að endir verði bundinn á hvalveiðar í atvinnuskyni. Síðar í mánuðinum mun Alþjóðahvalveiðiráðið funda í Chile þar sem rætt verður meðal annars um hvernig hægt sé að vernda hvalastofninn.
Nick Rahall, talsmaður demókrata, segir að mengun, loftslagsbreytingar og veiðar ógni hvalastofninum. Segir Rahall að Íslendingar og Japanar nýti sér hverja smugu sem finnist til þess að veiða hvali undir því yfirskyni að um vísindaveiðar sé að ræða.
Kemur fram í frétt AP fréttastofunnar að Íslendingar hafi hætt hvalveiðum árið 1986 í samræmi við samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins en hafið þær að nýju árið 2006. Japanir og Norðmenn hafi staðið þétt við hlið Íslendinga í þeirri viðleitni að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný.