Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Austurlands frá því í desember yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir þrjár líkamsárásir. Var manninum gert að sæta fangelsi í átta mánuði og greiða fórnarlömbunum skaðabætur. Þar sem maðurinn hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi eru sex mánuðir skilorðsbundnir.
Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa veist að karlmanni sem sat í bifreið og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið í gegnum opna rúðu í vinstri afturhurð. Síðar um nóttina sló hann sama mann ítrekað með golfkylfu. Á sama tíma sló hann annan mann einnig með golfkylfunni og þóttu árásirnar með golfkylfunni sérstaklega hættulegar.