Hæstiréttur staðfesti í dag fimmtán mánaða fangelsisdóm héraðsdóms Norðurlands vestra yfir grunnskólakennara fyrir kynferðisbrot gegn unglingsstúlku sem var nemandi við grunnskólann. Hins vegar var dómurinn skilorðsbundinn í héraðsdómi en ekki í Hæstarétti. Maðurinn var í héraðsdómi einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í bætur og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð.
Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að brot kennarans séu alvarleg og er refsing
hans, fangelsi í 15 mánuði, hæfilega ákveðin í héraðsdómi. Hann á sér engar
málsbætur og eru ekki forsendur fyrir því að binda refsinguna skilorði.
Samband kennarans og stúlkunnar stóð frá árinu 2003, þegar stúlkan var 13 ára og til ársins 2006. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að með því að taka upp kynferðislegt samband við nemanda sinn, sem varði í langan tíma, hafi maðurinn framið alvarlegt trúnaðarbrot, sem þung refsing liggi við að lögum.
Manninum var í héraðsdómi hins vegar virt til mikilla málsbóta, að gagnkvæmt ástarsamband hafi verið á milli hans og stúlkunnar og hann hafi lýst því, að fyrir sitt leyti hefði hann viljað halda því áfram og gera það opinbert. Því ákvað dómurinn að skilorðsbinda refsinguna að fullu.
Fram kemur í dómnum, að stúlkan bar að á tímabili hafi hún talið sig vera ástfangna af manninum þótt hún hafi varla vitað hvað var að gerast, enda hafi hlutirnir gerst hratt á þessum tíma. En nú, þegar hún hafi fengið utanaðkomandi aðstoð, viti hún að þetta hafi ekki verið nein ást.
Dómurinn sagði ljóst, að samband stúlkunnar og kennarans hafi haft áhrif á tilfinningalega líðan hennar og valdið henni félagslegum erfiðleikum. Því væri maðurinn bótaskyldur gagnvart henni.