Hæstiréttur staðfestir sýknu Fons

Iceland Express
Iceland Express mbl.is

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á síðasta ári yfir Fons, eignarhaldsfélagi þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, af kröfu Sigurðar Inga Halldórssonar, eins stofnanda Iceland Express um að greiða Sigurði Inga 21,15 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta þar sem hann taldi að hann hafi ekki fengið eðlilegt endurgjald fyrir hlut sinn í félaginu. Fons er eigandi Iceland Express.

Hélt Sigurður því fram að raunverulegt heildarverðmæti félagsins hafi verið mun meira þegar salan fór fram og söluverð bréfanna því of lágt. Reisti Sigurður kröfu sína einnig á því að forsendur fyrir fjárhæð umsamins söluverðs hafi brostið. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að meginreglan væri að samninga bæri að halda. Hefði Sigurði ekki tekist að sýna fram á að verðmat félagsins, sem lá fyrir þegar gengið var til samninga um sölu hlutafjárins, önnur atvik við samningsgerðina, efni samningsins eða staða samningsaðila hafi valdið því að skilyrðum 36. gr. samningalaganna væri fullnægt.

Þá var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að fallast ekki á að forsendur fyrir fjárhæð söluverðsins hafi brostið. Var kröfum Sigurðar því hafnað.

Sigurður Ingi var einn af stofnendum Íslands Express ehf. ásamt Guðmundi Þór Guðmundssyni lögfræðingi, Aðalsteini J. Magnússyni iðnrekstrarfræði og fleirum

Fyrsta rekstrarár félagsins var árið 2003. Síðla þess árs og árið 2004 var áhugi fyrir því að fá nýja aðila í hluthafahópinn. Haustið 2004 kom Iceland Express Investment S.A. inn í félagið og eignaðist 89% hlutafjár í félaginu. Hinn 28. apríl 2005 keypti Iceland Express Investment meira hlutafé og eftir þau viðskipti átti félagið yfir 90% hlutafjár í félaginu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert