Hálendisbjörn er hugsanlegur

Hvítabjörn á hálendi Íslands er ekki allt of ósennilegt að …
Hvítabjörn á hálendi Íslands er ekki allt of ósennilegt að mati Þorsteins. Reuters

„Þessi dýr geta farið hratt yfir og þetta er ekkert allt of ósennilegt," sagði Þorsteinn Sæmundsson forstöðumaður náttúrustofu Norðurlands í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins er hann var inntur eftir skoðun hans á meintum bjarndýrssporum á Hveravöllum.

Þorsteinn sagði að fyrst þyrfti að staðfesta að um bjarndýrsspor væri að ræða áður en nokkur hætta væri talin á ferðum. 

Þorsteinn sagði að hvítabirnir ferðist ótrúlegar vegalengdir á hverju ári. Þeir eru harðger dýr sem geta lifað mánuðum saman án matar og éta þá gróður og þang.

„Þessi vegalengd frá sjó og upp á hálendi Íslands er ekkert stórkostlegt þó að þetta sé langt og að það sé skrýtið að enginn hafi séð til hans ef þetta er björn," sagði Þorsteinn að lokum.

Lögreglan á Blönduósi segir að athugað verði í fyrramálið hvort gripið verði til frekari aðgerða. Að sögn varðstjóra komu lýsingar ferðamannanna heim og saman við bjarndýrsþófa og gátu þau teiknað upp mynd af sporunum sem virtist mjög trúverðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert