Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, ætlar ekki að bjóða sig fram til stjórnar á hluthafafundin félagsins í dag. Eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, kemur ný inn í stjórnina.
Tillaga liggur fyrir hluthafafundi um að fækka stjórnarmönnum úr 7 í 5. Auk Jóns Ásgeirs ganga þeir Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason úr stjórninni.
Af 66. grein hlutafélagalaga má draga þá ályktun að Jóni Ásgeiri sé ekki heimilt að sitja í stjórn eða vera framkvæmdastjóri í íslenskum félögum eftir að Hæstiréttur dæmdi hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi 5. júní síðastliðinn. Gildir það í þrjú ár frá uppkvaðningu dómsins.
Fundur FL Group í dag er fyrsti hluthafafundur félags þar sem Jón Ásgeir situr í stjórn eftir niðurstöðu Hæstaréttar.
Samkvæmt upplýsingum frá Lánstrausti er Jón Ásgeir stjórnarmaður í 22 félögum á Íslandi. Auk FL Group eru það félög eins og 365, Baugur Group, Styrkur, Stoðir, Hagar og ýmis fjárfestingarfélög. Fjölmörg fyrirtæki eru svo rekin undir þessum félögum bæði á Íslandi og erlendis.
Auk Ingibjargar Pálmadóttur munu þau Katrín Pétursdóttir, Þorsteinn M. Jónsson, Eiríkur S. Jóhannesson og Árni Hauksson verða sjálfkjörin í stjórn.