Þann 1. júlí taka í gildi nýjar reglur um siglingaleiðir við suður- og suðvesturströnd Íslands samkvæmt reglugerð samgönguráðuneytisins.
Tilkynning frá Siglingastofnun.
Reglugerðin er tillaga starfshóps sem samgönguráðherra skipaði haustið 2006 til að vinna að tillögum um leiðastjórnun skipa, neyðarhafnir og varnir gegn mengun frá skipum. Alþjóðasiglingamálastofnunin í Lundúnum (IMO) samþykkti þessar tillögur þegar þær voru lagðar fyrir hana árið 2007 og felast þær í leiðastjórnun, mörkun svæða sem ber að forðast og tilkynningaskyldu skipa.
Markmiðið um leiðastjórnun, mörkun svæða og tilkynningaskyldu suður og suðvestur af landinu er að treysta öryggi sjófarenda og draga úr líkum á alvarlegum afleiðingum óhappa fyrir umhverfið. Á þessu svæði eru bæði hrygningar- og uppeldisstöðvar helstu nytjastofnanna og mikilvægar veiðislóðir.
Leiðastjórnunin gerir ráð fyrir tveimur siglingaleiðum fyrir Reykjanes, innri og ytri leið. Öllum skipum stærri en 5.000 brúttótonn og öllum skipum sem flytja hættuleg efni og eiturefni í búlka eða tönkum skuli siglt um ytri leið nema heimilt sé að sigla þeim um innri leið.
Heimilt er að sigla flutningaskipum allt að 20.000 brúttótonnum um innri leið að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
i. Skipið flytji ekki hættuleg efni eða eiturefni í lausafarmi eða tönkum.
ii. Skipstjóri hafi fengiðsérstaka heimild Siglingastofnunar til að sigla leiðina sem skipstjóri. Til að fá slíka heimild þarf skipstjóri á undangengnum 18 mánuðum hafa siglt sex sinnum áfalla- og athugasemdalaust til hafna við Faxaflóa sem skipstjóri eða yfirstýrimaður. Siglingaheimild skipstjóra fellur úr gildi ef 24 mánuðir líða án þess að skipstjórinn sigli skipi til hafna við Faxaflóa.
Heimilt er að sigla tankskipum allt að 5.000 brúttótonnum að stærð, sem flytja létta olíu, um innri leið. Skipstjóri skal uppfylla sömu skilyrði um áfallalausa siglingu til hafna við Faxaflóa eins og greint er frá hér að framan.
Svæðin sem ber að forðast eru þrjú: Selvogsbankasvæði, Fuglaskerssvæði og Syðra-Hraunssvæði. Skilyrði um þau taka til allra skipa sem falla undirákvæði alþjóðasamningsins um öryggi mannslífa á hafinu (flutninga- og farþegaskip) og eru 500 brúttótonn eða stærri.
Sigling um Selvogsbankasvæðið er heimil skipum sem sigla til hafna innan Selvogsbankasvæðisins. Skip, minni en 5.000 brúttótonn, sem eru á siglingu milli íslenskra hafna og flytja ekki hættuleg efni eða eiturefni í lausafarmi eða tönkum mega sigla um Selvogsbankasvæðið, sunnan við 63°45,00' N breiddargráðu.
Tilkynningaskylda hefur verið tekin upp á Selvogsbankasvæðinu.
Skip sem sigla inn á Selvogsbankasvæðið eiga að tilkynna það með 4 klst. fyrirvara eða í síðasta lagi þegar siglt er frá höfnum við Faxaflóla eða höfnum innan Selvogsbankasvæðisins. Skip minni en 5.000 brúttótonn í siglingum milli hafna á Íslandi hafa heimild til að sigla um svæðið ef þau flytja ekki hættuleg efni eða eiturefni í lausafarmi eða tönkum. Um þau gildir einnig ákvæði tilkynningaskyldu.