Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Norðurlands vestra sakfelldur fyrir vörslu fíkniefna og gert að greiða 85 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs. Upptæk eru 17,53 grömm af marijúana en hald var lagt á þessi fíkniefni við rannsókn málsins.
Maðurinn var stöðvaður af lögreglunni á Blönduósi þann 20. desember sl. og fundust efnin í tösku í farangursrými bifreiðarinnar sem maðurinn ók og stöðvuð var á Norðurlandsvegi við almennt umferðareftirlit.
Samkvæmt sakavottorði var maðurinn fyrst dæmdur þegar hann var tvítugur en þá var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir ránstilraun. Með dómi 24. nóvember sama ár var skilorðsdómurinn tekinn upp og ákærða dæmdur hegningarauki fyrir fjársvik. Var refsing þá ákveðin 9 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár.
Refsing samkvæmt þeim dómi var einnig dæmd upp með dómi 1. febrúar 2005, sem ákærði hlaut fyrir fjársvik. Þar var refsing ákveðin 11 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár. Ákærði hlaut næst dóm 20. maí 2005 fyrir fíkniefnabrot en var ekki gerð refsing.
Þá hlaut ákærði sektardóma 23. júní og 28. nóvember 2005 fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Hinn 3. ágúst 2006 var hann dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og gert að greiða sekt en skilorðsdómur ekki dæmdur upp. Hinn 13. apríl 2007 gekkst ákærði undir sátt vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.
Í júlímánuði sama ár var honum ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Loks var hann í október 2007 dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni auk þess sem hann var sviptur ökurétti.