Skemmdarverk var unnið á flutningapramma ferðaþjónustufyrirtækisins Grunnavíkur á Ísafirði. Hætta hefði getað skapast og heppni að skemmdir voru uppgötvaðar áður en pramminn fór út aftur.
Óprúttnir aðilar unnu skemmdarverk á flutningaprammanum Ásdísi nýlega. Að sögn Friðriks Jóhannssonar hjá Ferðaþjónustunni Grunnavík, sem á prammann, hafði hann verið í höfn í Bolungarvík og á Ísafirði frá því á laugardag en í gær áttuðu menn sig á því að vatnsdælur um borð virkuðu ekki sem skyldi.
Þegar nánar var að gáð kom í ljós að snúrur sem tengja
dælurnar við sólarrafhlöður prammans höfðu verið skornar og rifnar úr.
Friðrik telur að ekki hafi hver sem er getað verið hér að verki því
einhverja rafvirkjakunnáttu þurfi til að gera svona lagað. Að sögn
Friðriks er ekki komið á hreint hvað það muni kosta mikið að bæta
skemmdirnar.
„Peningarnir eru ekki það sem mestu máli skiptir.
Þessar dælur eru öryggistæki sem sjá um að dæla sjó úr prammanum og
koma í veg fyrir hann sökkvi þegar við erum með hann í eftirdragi. Ef
pramminn byrjar að sökkva og hann er fastur við bátinn skapast auðvitað
hætta“, segir Friðrik.
Hann segir það mikla gæfu að það hafi rignt
eitthvað síðustu daga því ef hann hefði ekki tekið eftir rigningarvatni
í botni prammans í fyrradag hefði hann sennilega farið með hann út án
þessa mikilvæga öryggistækis, sem er alsjálfvirkt.
„Það er
auðvitað óþægileg tilfinning að vita til þess að einhver geri svona
lagað, það er lítið sem menn geta grætt á því. Eitt er á hreinu, ég
þori ekki að geyma prammann í höfnunum á Ísafirði eða Bolungarvík.
Framvegis verður hann geymdur á legu út af Grunnavík.“
Eins og
áður sagði voru skemmdarverkin framin einhvern tímann á tímabilinu frá
laugardegi til þriðjudags, annað hvort í höfninni í Bolungarvík eða í
höfninni á Ísafirði.
Flutningapramminn Ásdís var nýlega tekinn í notkun. Pramminn var áður fiskibátur á Siglufirði sem lenti í tjóni. Var honum breytt í flutningatæki með því að skera dekkið úr og er þá opið svæði aftan við stýrihúsið. Um borð eru tvær lensidælur við rafgeymi sem fær hleðsluorku frá sólarrafhlöðu.
Ef einhverjir hafa upplýsingar um verknaðinn eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 450-3730.