Skrifað undir samkomulag um jafnréttisskóla

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristín Ingólfsdóttir skrifuðu undir samkomulagið
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Kristín Ingólfsdóttir skrifuðu undir samkomulagið mbl.is/Kristinn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði jafnréttismála. Samstarfið felur í sér stofnun jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Íslands með stuðningi ráðuneytisins.

Aukið samstarf við íslenskt háskólasamfélag er hluti af uppbyggingu á þekkingarsamfélagi um þróunarmál á Íslandi, að því er segir í tilkynningu. Utanríkisráðuneytið á nú þegar öflugt samstarf við háskóla og rannsóknarstofnanir meðal annars um rekstur á jarðhitaskóla og sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands hafa því ákveðið að efna til samstarfs á sviði jafnréttismála og er ráðgert að jafnréttissetur og jafnréttisskóli verði formlega sett á stofn í nóvember nk. Sérstök áhersla verður lögð á fá til skólans sérfræðinga frá þróunarríkjum.

„Gert er ráð fyrir að Rannsóknastofa Háskólans í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), sem hingað til hefur verið helsti vettvangur jafnréttisrannsókna hér á landi, verði hluti af hinu nýja jafnréttissetri. Setrinu er ætlað að vera bakhjarl jafnréttisskólans og verða þar meðal annars stundaðar rannsóknir með áherslu á jafnréttismál í þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingu sem munu nýtast við kennslu við skólann. Jafnréttisskólinn mun bjóða upp á námskeið fyrir sérfræðinga og aðra sem starfa að jafnréttismálum.

Með þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hefur áhersla á jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna aukist mjög. Hefur sýnt sig að aukið jafnrétti og ekki síst aukin þátttaka kvenna í ákvarðanatöku og atvinnulífi hefur margfeldisáhrif á félags- og efnahagslega þróun og velferð samfélaga. Á þetta sérstaklega við um þróunarríki og eru jafnréttismál því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka