Strawberries fær ekki undanþágu

Á borgarráðsfundi nú í morgun var einróma samþykkt að hafna beiðni Strawberries um undanþágu til að reka nektardansstað. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Vinstri grænum að minnihluti borgarráðs hafi látið bóka eftirfarandi við afgreiðsluna:

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks fagna því að borgarráð skuli leggjast einróma gegn veitingu nektardansleyfis í dag þegar 93 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Synjunin er til marks um mikinn árangur í jafnréttismálum, enda er baráttan gegn klámvæðingunni eitt helsta verkefni nútímans. Reykjavíkurborg hefur á umliðnum árum verið í fararbroddi í þeirri vinnu og afar brýnt að svo verði áfram.

Að sama tilefni lagði minnihlutinn fram svofellda tillögu sem var  einróma vísað til mannréttindanefndar: 

Borgarráð samþykkir að láta vinna aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn kynbundnu ofbeldi, sem byggð verður á Mannréttindastefnu borgarinnar. Aðgerðaráætlunin taki á hlutverki borgarinnar sem veitanda þjónustu, sem atvinnurekanda, sem stjórnvalds og sem samstarfsaðila, en vinnan við hana verði með sambærilegum hætti og aðgerðaráætlun gegn mansali sem verið er að vinna á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Þannig verði skipaður starfshópur kjörinna fulltrúa og sérfræðinga hjá borginni, en jafnframt verði óskað eftir tilnefningum frá Stígamótum, Samtökum um kvennaathvarf og Neyðarmóttöku vegna nauðgunar.

Mannréttindastjóra verði falið að skipa hópinn sem skili niðurstöðum eigi siðar en 8. mars 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert