Aðilar sem stöðu sinnar vegna geta haft áhrif á framgang jafnréttis í íslensku samfélagi fá á hverju ári afhenta bleika steina, sem eru hvatningarverðlaun Femínistafélagsins.
Að þessu sinni eru handhafar þeirra dóms- og kirkjumálaráðherra, forseti hæstaréttar, dómarafélag Íslands og kynferðisafbrotadeild lögreglunnar.
Dómarar mættu ekki til að taka við verðlaununum, á þeim forsendum að þeir vildu gæta hlutleysis dómstólanna, en fulltrúar dómsmálaráðherra og kynferðisafbrotadeildarinnar tóku við steinum á Austurvelli í morgun.
Á sama tíma var frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, afhent þakkargjöf frá íslenskum konum, að heimili hennar á Aragötu 2. Um er að ræða sex listaverkakort í fallegri gjafapakkningu eftir íslenskar myndlistakonur af ólíkum toga og á mismunandi aldri.
Í tilkynningu frá konunum segir:
„Með þessum kortum viljum við íslenskar konur þakka Vigdísi Finnbogadóttur fyrir allt sem hún er okkur, og þá sérstaklega að hún er okkur ómetanleg fyrirmynd og varanleg.
Nafn Vigdísar Finnbogadóttur verður ávallt tengt þeim sögulega viðburði að hún var fyrst kvenna í heiminum þjóðkjörin forseti árið 1980 og merkir enn í augum heimsins að íslenskar konur hljóti að vera í fararbroddi, öflugar og óhræddar.
Með kortunum viljum við bæði þakka Vigdísi og minnast þess að við erum ólíkar innbyrðis og höfum mismunandi markmið en erum samt fyrirmyndir sjálfar með orðum okkar og gjörðum. Kortunum er ætlað að hvetja konur til að senda hver annarri jákvæð skilaboð.
Áform Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur um að koma á stofn alþjóðlegri miðstöð tungumála á Íslandi er hjartans mál Vigdísar, um leið íslenskt metnaðarmál í þágu allra heimsins orða – orðanna sem eru til alls fyrst. Við getum leggjum nú þessu máli lið, hver og ein í til að draumur Vigdísar rætist.“