Átta palestínskum fjölskyldum sem dvelja í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak verður boðið hæli á Íslandi, samtals 29 manns. Þetta eru tíu konur, allar einstæðar mæður, og 19 börn. Mögulegt er að ein þessara fjölskyldna, kona með þrjú börn, sjái sér ekki fært að taka boði um hæli hér á landi en það skýrist á næstunni.
Sendinefnd skipuð fulltrúum flóttamannanefndar og Útlendingastofnunar fór til Íraks fyrir skömmu og heimsótti flóttamannabúðirnar í Al Waleed. Flóttamannanefnd hefur samþykkt tillögur nefndarinnar um hverjum verði boðið hæli hér og hafa þær nú verið staðfestar af félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra.