Mikil breyting var í gær gerð á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Lánveitingar sjóðsins munu hér í frá miðast við kaupverð eigna í stað brunabótamats en hlutfallið verður enn 80%. Um er að ræða breytingu sem lengi hefur verið barist fyrir og verður kaupendum tvímælalaust til mikilla hagsbóta. Þá verður hámarkslánið hækkað úr 18 milljónum í 20 milljónir. Munu þessar breytingar koma ungu fólki afar vel sem hyggur á sín fyrstu íbúðakaup.
Viðmælendur Morgunblaðsins voru allir sammála um að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu afar jákvæðar og mikilvægt skref í átt að umbótum fasteignamarkaðarins. Betur má ef duga skal, segja þó margir viðmælendur blaðsins. Það er skoðun Ingibjargar Þórðardóttur, formanns Félags fasteignasala, að hámarkslánið hefði mátt hækka enn meir og lánshlutfall til fyrstu kaupa hækka í 90%. Þá geta aðrir þess að lækka þurfi stýrivexti sem fyrst, sem og að ljúka við umbætur á lánamarkaðnum.
Að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn er það brýnt verkefni að það gengur framar vangaveltum um áhrif á verðbólgu, að mati Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings. „Hins vegar verður að horfa til þess að komi aðgerðirnar hreyfingu á markaðinn verður það væntanlega til að mælt fasteignaverð lækkar og hefur það svo áhrif til lækkunar á neysluverðsvísitölu.“