Þær tafir sem urðu á umferð vegna umferðarslyss neðarlega í Ártúnsbrekku, um hádegisbil á miðvikudag, vöktu töluverða reiði vegfarenda.
Eitt af því sem lesendur hafa spurt er hvers vegna flutningabifreiðin var ekki einfaldlega girt af og fjarlægð síðar, s.s. að kvöldi eða um nótt.
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir ýmislegt koma til álita á vettvangi og það hafi verið rætt. „En þarna var ákveðið að gera þetta strax. Enda ekki víst að þjónustuaðilar sinni slíkum erindum á nóttunni eða þá að það væri með tilheyrandi aukakostnaði og aukavinnu.“
Þær gagnrýnisraddir heyrst einnig að upplýsingar til ökumanna hafi verið ónógar og það hafi stuðlað að því að ökumenn gátu ekki tekið tillit til aðstæðna og valið að fara aðrar leiðir.
Í Morgunblaðinu í gær lýsti Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, þeirri framtíðarsýn að komið yrði upp eins konar ljósabrúm, líkt og tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Á þeim væri hægt að miðla upplýsingum um lokanir eða tafir, og jafnvel minnka hámarkshraða ef slæmar veðurfarslegar aðstæður sköpuðust. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB og stjórnarmaður í umferðarráði, tekur undir hugmyndir Guðbrands.