Arnaldur hlaut Blóðdropann

Arnaldur hlaut Blóðdropann í ár.
Arnaldur hlaut Blóðdropann í ár. mbl.is/Viktor Arnar Ingólfsson

Blóðdropinn, verðlaun sem Hið íslenska glæpafélag veitir fyrir bestu glæpasöguna 2007 voru afhent fyrir skömmu í bókaversluninni Eymundsson í Austurstræti í Reykjavík og varð Arnaldur Indriðason hlutskarpastur. Arnaldur veitti verðlaununum sjálfur viðtöku úr hendi dómnefndar formannsins Kristjáni Jóhanni Jónssyni.

Að mati dómnefndarinnar var bók Arnaldar, Harðskafi besta glæpasagan sem gefin var út á síðasta ári. Sú bók sem hlýtur Blóðdropann er sjálfkrafa tilnefnd sem framlag Íslands til samkeppninnar um hin norrænu Glerlykils verðlaun.

Arnaldur hefur tvisvar áður hlotið Glerlykilinn og gæti því orðið fyrstur höfunda til að hljóta hann þrisvar. 

Kristján Jóhann sem afhenti Blóðdropann sagði að samkeppnin hafi verið hörð í ár og færi harðnandi. Með honum í dómnefndinni voru þær Ingibjörg Rögnvaldsdóttir og Anna Ingólfsdóttir. 

Álit dómnefndar
„Verðlaunasagan að þessu sinni er skrifuð af þjálfuðum sagnasmið. Hún lætur ekki sérlega mikið yfir sér við fyrstu sýn en dýpkar við hverja stund sem lesið er. Örlagaþræðir óskyldra persóna spinnast saman og aðalpersónan finnur í sögum annarra það sem hann leitar að í sínu eigin lífi. Það sem hann þráir gerir hann að framúrskarandi rannsóknarlögreglumanni.

 Verðlaunasagan Harðskafi eftir Arnald Indriðason er djúp eins og vötnin sem tengjast fléttu sögunnar. Hún er líka lifandi eins og þau, lífríki hennar er sterkt og fjölbreytt. Hún er hins vegar ekki köld eins og vötnin þar sem þau eru dýpst. Sagt er frá heitum tilfinningum, ást og tryggð, ótryggð og græðgi, metnaði og særðu stolti.

Það er ánægja og heiður að því að veita Arnaldi Indriðasyni blóðdropann árið 2008. Þess skal getið að samkeppnin var mjög hörð og virðist reyndar harðna ár frá ári."
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka