Í morgun fóru þrír lögreglumenn frá Blönduósi til Hveravalla ásamt tuttugu björgunarsveitarmönnum til að leita á svæði þar sem ferðamenn töldu sig hafa séð spor eftir bjarndýr í gær. Telja þeir sig hafa tekið af allan vafa um að meint bjarndýrsspor séu í raun hófför eftir hross.
Á afmörkuðu leitarsvæði fannst slóð sem við nánari skoðun reyndist vera eftir hross. Þar sem þessi spor voru í blautu moldarflagi voru þau mjög stór og komu vel heim og saman við lýsingu ferðamannanna.
Niðurstaðan er því sú að þessi spor sem ferðamennirnir sáu eru talin vera eftir hross og er því málinu lokið, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Blönduósi.
„Þetta er atriði sem ekki er þorandi að líta framhjá, en svo má ekki halda svæðinu í heljargreip heldur," sagði varðstjóri lögreglunnar á Blönduósi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins um meint bjarndýrsspor.
Björgunarsveitarmennirnir sem tóku þátt í sporleitinni voru frá björgunarsveitunum Blöndu og Strönd frá Skagaströnd og fleirum í nágrenninu.