Með þeim breytingum á Íbúðalánasjóði, sem ríkisstjórnin kynnti í gær, má segja að sjóðurinn sé að „koma þjóðinni allri til bjargar,“ að mati formanns Félags fasteignasala.
Ingibjörg Þórðardóttir, formaður félagsins, telur erfitt að segja til um að svo stöddu hvaða áhrif breytingin muni hafa á fasteignaverð, en þó finnst henni heldur ólíklegt að mikil breyting verði á því.
Lánveitingar sjóðsins munu hér í frá miðast við kaupverð eigna í stað brunabótamats en hlutfallið verður enn 80%. Þá verður hámarkslánið hækkað úr 18 milljónum í 20 milljónir.
Viðmælendur Morgunblaðsins í dag eru allir sammála um að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu afar jákvæðar og mikilvægt skref í átt að umbótum fasteignamarkaðarins.
Ingibjörg segir að afnám stimpilgjalda muni ennfremur verða til mikilla bóta.
Hún telur þó að betur megi ef duga skuli, og æskilegt væri að hámarkslán til fyrstu kaupa hækki í 90%.