Konur taka höndum saman

00:00
00:00

Klukk­an níu í kvöld hefst bein út­send­ing á Skjá ein­um og mbl.is frá söfn­un­ar­átaki und­ir heit­inu „Á allra vör­um.“ Þar munu um 200 kon­ur taka hönd­um sam­an og afla fjár til að leggja Krabba­meins­fé­lag­inu lið við kaup á nýj­um tækj­um sem greina brjóstakrabba á frum­stigi.

Í söfn­un­arþætt­in­um munu landsþekkt­ar kon­ur standa fyr­ir umræðum og skemmti­atriðum. Auk þess að fræða og skemmta áhorf­end­um munu þær kynna mik­il­vægi nýju tækj­anna og upp­lýsa um gang söfn­un­ar­inn­ar. Einnig munu kon­ur sem greinst hafa með brjóstakrabba­mein segja sín­ar sög­ur og miðla af reynslu sinni. Sýnt verður beint frá sjón­varps­sal Skjás eins og þjón­ustu­veri Já 118 þar sem svarað verður í sér­stakt áheita­núm­er.

Söfn­un­ar­núm­er átaks­ins hafa verið opnuð og eru: 903 1000 fyr­ir þá sem vilja gefa 1.000 kr., 903 3000 fyr­ir þá sem vilja gefa 3.000 kr. og 903 5000 fyr­ir þá sem vilja gefa 5.000 kr. Söfn­un­ar­núm­er­in verða opin allt þar til út­send­ingu lýk­ur. Á meðan á beinni út­send­ingu stend­ur verður einnig hægt að hringja í síma 595 6000 þar sem þjóðþekkt­ar kon­ur sitja í þjón­ustu­veri Já og taka við fram­lög­um.

Fjár­öfl­un­ar­átakið „Á allra vör­um" fór af stað þann 29. apríl sl. og mun standa fram á haust. For­svars­kon­ur átaks­ins, Gróa Ásgeirs­dótt­ir og Guðný Páls­dótt­ir, réðust í átakið þegar þeim varð ljóst mik­il­vægi þess að efla for­varn­ir og tækja­búnað Krabba­meins­fé­lags Íslands. Fé hef­ur verið safnað í nafni átaks­ins með sölu á varagljáa og mun það fé sem safn­ast í sjón­varps­söfn­un Skjás eins bæt­ast við sjóð átaks­ins. Mark­mið söfn­un­ar­inn­ar er að aðstoða Krabba­meins­fé­lag Íslands við að kaupa sta­f­ræn­an rönt­gen­búnað sem get­ur bet­ur greint krabba­mein í brjóst­um á frum­stigi en nú­ver­andi búnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert