Konur taka höndum saman

Klukkan níu í kvöld hefst bein útsending á Skjá einum og mbl.is frá söfnunarátaki undir heitinu „Á allra vörum.“ Þar munu um 200 konur taka höndum saman og afla fjár til að leggja Krabbameinsfélaginu lið við kaup á nýjum tækjum sem greina brjóstakrabba á frumstigi.

Í söfnunarþættinum munu landsþekktar konur standa fyrir umræðum og skemmtiatriðum. Auk þess að fræða og skemmta áhorfendum munu þær kynna mikilvægi nýju tækjanna og upplýsa um gang söfnunarinnar. Einnig munu konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein segja sínar sögur og miðla af reynslu sinni. Sýnt verður beint frá sjónvarpssal Skjás eins og þjónustuveri Já 118 þar sem svarað verður í sérstakt áheitanúmer.

Söfnunarnúmer átaksins hafa verið opnuð og eru: 903 1000 fyrir þá sem vilja gefa 1.000 kr., 903 3000 fyrir þá sem vilja gefa 3.000 kr. og 903 5000 fyrir þá sem vilja gefa 5.000 kr. Söfnunarnúmerin verða opin allt þar til útsendingu lýkur. Á meðan á beinni útsendingu stendur verður einnig hægt að hringja í síma 595 6000 þar sem þjóðþekktar konur sitja í þjónustuveri Já og taka við framlögum.

Fjáröflunarátakið „Á allra vörum" fór af stað þann 29. apríl sl. og mun standa fram á haust. Forsvarskonur átaksins, Gróa Ásgeirsdóttir og Guðný Pálsdóttir, réðust í átakið þegar þeim varð ljóst mikilvægi þess að efla forvarnir og tækjabúnað Krabbameinsfélags Íslands. Fé hefur verið safnað í nafni átaksins með sölu á varagljáa og mun það fé sem safnast í sjónvarpssöfnun Skjás eins bætast við sjóð átaksins. Markmið söfnunarinnar er að aðstoða Krabbameinsfélag Íslands við að kaupa stafrænan röntgenbúnað sem getur betur greint krabbamein í brjóstum á frumstigi en núverandi búnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert